«

»

Molar um málfar og miðla 1549

 

Í Spegli Ríkisútvarpsins á þriðjudagskvöld (19.08.2014) var talað um að hætta gangnagerð á Gaza. Hefði auðvitað átt að vera gangagerð. Hér var ekki verið að notað fleirtölumyndina  göngur. Þetta er einhverskonar áráttuvilla. Heyrist  aftur og aftur.  Verkefni fyrir málfarsráðunaut sé hann enn á staðnum.

 

Glöggur lesandi benti Molum á þetta á dv.is (19.08.2014) – í þeim efnisflokki sem kallast Menning. ,,Glænýrri starfsstöð Grunnskóla Grindavíkur, Bókasafns Grindavíkur og tónlistarskólans við Ásabraut vantar nafn.” Glænýrri starfsstöð vantar nafn! Það var og. https://www.dv.is/menning/2014/8/19/gefa-spjaldtolvu-i-nafnasamkeppni/

 

Mikið var talað um saksónara í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (19.08.2014). átt var við saksóknara. Dálítið undarlegt að reyndur fréttamaður skuli ekki geta komið þessu óbrengluðu til okkar. Hefur verið nefnt áður í Molum.

 

Í fréttum Stöðvar tvö af eldsvoða á mánudagskvöld (18.09.2014) sagði fréttamaður að reykur lægi frá húsinu. Hann átti við að reyk hefði lagt frá húsinu, það rauk úr húsinu. Það lagði frá því reyk.

 

Af mbl.is (19.08.2014): ,,Hann seg­ir stjórn­end­um fram­halds­skóla hafa stafað ógn af busa­vígsl­um und­an­far­in ár og það hafi gerst að þær hafi farið al­veg úr bönd­un­um.” Molaskrifari leyfir sér að halda því fram að hér hafi ekki verið notað rétt orðalag. Stjórnendum framhaldsskóla hafi ekki staðið ógn af busavígslunum. Þeir hafi ekki hræðst þær. Þeir hafi hins vegar verið andvígir busavígslunum og viljað að þeim yrði hætt, þær afnumdar, sem er allt annar handleggur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/19/vilja_afnema_busavigslur

 

Stundum ættu blaðamenn að laga klaufalegt orðfæri blaðafulltrúa. Eða hvað? Á mbl.is (19.08.2014) er haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélags Íslands: ,, Það var al­veg sorg­legt að geta ekki siglt nýju skipi til Íslands und­ir ís­lensk­um fána vegna þess að um­hverfið hér á landi sé ekki vin­veitt skrán­ingu kaup­skipa….”. Alveg sorglegt????

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>