«

»

Molar um málfar og miðla 1563

 

Molavinur skrifaði (067.09.2014). Hann sagðist hafa hlustað á viðtal við Björk Guðmundsdóttur söngkonu í Spegli ríkisútvarpsins föstudaginn 5. september um framtak hennar sem kynnt er í öllum fjölmiðlum um helgina. Hann segir í bréfinu: ,,Björk hefur lagt lofsamlega mikið af mörkum í þágu náttúrunnar og verndar henni. Vernd nær til fleiri þátta en náttúrunnar þar á meðal til móðurmálsins. Björk sletti svo enskum orðum í þessu stutta útvarpsviðtali að flutt í sjónvarpi hefði átt að texta það. Björk er verðug fyrirmynd, ekki þó í þessu viðtali, hún framdi of mörg málspjöll í Speglinum. Henni var alls enginn greiði gerður með útsendingu á samtalinu í þeim búningi sem það var. Ritstjóri Spegilsins hefði átt að endursegja samtalið en ekki flytja það á þennan hátt.“ Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði ekki þennan pistil, en efast ekki um að hér sé rétt með farið. Auðvitað hefði átt að endursegja samtalið, ef þar voru svona margar slettur.

 

Í kynningu á dagskrá Ríkissjónvarpsins í Morgunblaðinu (05.09.2014) segir um breska vísindamenn sem unnu að því að þróa ratsjá í seinni heimsstyrjöld: , Í stærstu leynd vinna þeir að nýrri uppfinningu…”  Betra orðalag hefði verið: ,, Með mikilli leynd vinna þeir …” Að líkindum er þetta orðalag beint frá  sjónvarpinu komið.

 

Molaskrifari horfir ekki mikið á matreiðsluþætti. En þáttaröð Gísla Arnar Garðarssonar um Nautnir norðursins sem hófst í Ríkissjónvarpinu á fimmtudag (04.09.2014) lofar sannarlega góðu. Góð hugmynd og vel útfærð í fyrsta þættinum. Vonandi verða hinir þættirnir ekki síðri.

 

Stundum hafa undarlegar myndbirtingar verið nefndar hér í Molum. Á mbl.is (05.09.2014) er sagt frá smábarni sem féll út um glugga á fimmtu hæð húss í Valby utan við Kaupmannahöfn. Með fréttinni er birt mynd úr Nýhöfninni, sem kemur málinu ekkert við. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/05/otrulega_heppinn_drengur/

NN sendi Molum eftirfarandi (05.09.2014): ,,Sæll Eiður,
Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson var einn okkar allra besti dægurlagasöngvari. Hann lést langt fyrir aldur fram, eins og flestir vita, en greinilega ekki allir. Þess vegna er ekki hægt að halda upp á sjötugsafmæli söngvarans, eins og auglýst var á RUV. Hér er um að ræða tónleika í tilefni sjötíu ára „fæðingarafmælis“ Vilhjálms. Þetta orð virðist vera að gleymast. Þessu er æ oftar ruglað saman!

Tengill á frétt: – http://www.ruv.is/frett/faedingarafmaeli-hannesar-hafstein
————————————
Vefur RÚV: http://www.ruv.is – Sapurinn: www.ruv.is/sarpurinn

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er réttmæt athugasemd.

 

Úr frétt á mbl.is (05.09.2014): ,, Morðmálið vakti mikla at­hygli en talið er að nítj­án ung­ar kon­ur og stúlk­ur hið minnsta hafi verið nauðgað og myrt­ar í „hryll­ings­hús­inu“. Hér hefur fréttaskrifari ekki vandað sig. Hann hefði átt að skrifa, til dæmis: ,, Morðmálið vakti mikla at­hygli en talið er að nítj­án ung­um kon­um og stúlk­um, hið fæsta, hafi verið nauðgað og þær myrt­ar í „hryll­ings­hús­inu”.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>