Úr frétt á mbl.is um skipsstrandið fyrir austan http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/06/thyrlan_lenti_a_hladinu_3/ var rætt við bóndann á Vattarnesi og eftir honum haft: ,,Baldur bætir því við að háflóð hefjist um korter yfir tólf og að tvö öflug loðnuskip séu mætt á svæðið” Molaskrifari leyfir sér að efast um að bóndinn hafi tekið svona til orða. Háflóð hefst ekki. Háflóð er, var eða verður. Það er talað um að háflóð sé á tiltekinni stundu. Í þessu tilviki klukkan fimmtán mínútur yfir tólf. Í annarri frétt um þetta sama strand í sama miðli var lesendum sagt, að ,, dælurnar hefðu í allan dag dælt vatni úr skipinu en ekki haft undan vegna stærðar lekans” Þarna var auðvitað verið að dæla sjó úr skipinu, ekki vatni og ekki fer heldur vel á því að tala um stærð lekans.
Úr frétt á mbl.is (06.09.2014): „ … segir Guðbrandur Örn Arnarson verkefnastjóri aðgerðarmála. Hann segir unnið að því að tryggja ástandið og fyrirbyggja frekari slys.“ Verkefnasstjóri aðgerðarmála er stöðuheiti, sem Molaskrifari hefur ekki heyrt áður. Æ algengara er að heyra sögnina að tryggja notaða eins og hér gert. Í þeirri merkingu að ná stjórn á hlutunum í erfiðri stöðu, þegar slys eða óhapp hefur orðið. Þessa notkun má sjálfsagt rekja beint til enskrar tungu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/06/unnid_ad_thvi_ad_tryggja_astandid/
Það var fróðlegt að hlusta á útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins í sunnudagsþætti Sirrýjar á Rás tvö (07.09.2014). Opna línan var hinsvegar ekki mjög lengi opin, örfáir hlustendur gátu skotið inn orði. Sagt var að bætt yrði úr því næsta sunnudag. En þá verður enginn útvarpsstjóri til að svara og tíminn heldur naumt skammtaður heyrðist manni. Það var auðvitað mjög viðeigandi að á undan samtalinu við útvarpsstjóra skyldu fluttar leiknar auglýsingar. Samskonar auglýsingar og rutt hafa til hliðar síðasta lagi fyrir fréttir! Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að hann skildi alls ekki útskýringar útvarpsstjóra á flutningi þessa fasta liðar í dagskránni. Hversvegna er þetta flókið? Hvernig einfaldar þetta tæknikeyrsluna? Í hinu orðinu var sagt að þetta væri til að bregðast við samdrætti á auglýsingamarkaði???? Hvað sparast mikið fé? Eftir stendur í huga skrifara að þarna hafi verið breytt til þess eins að breyta. Til þess að nýir herrar geti sett mark sitt á dagskrána þannig að allir taki eftir. Það tókst vissulega ,en sú ráðstöfun er misheppnuð. Það á ekki að breyta því sem er í góðu lagi. Útvarpsstjóri sagði skýrt, að hann vildi vernda Rás eitt. Það gerir hann ekki með þarflausri breytingu til verri vegar. Þarna er verið að vega að íslenskri tónlist, íslenskum flytjendum, einkum einsöngvurum.
Það er góð hugmynd sem fram kom hjá útvarpsstjóra að efna til hlustendaþings Ríkisútvarpsins í vetur. Í framhaldi af því mætti setja á laggirnar einskonar hlustendaráð, sem kæmi saman 3-4 sinnum á ári. Og hvernig væri svo að birta reglulega niðurstöður kannana sem Ríkisútvarpið lætur gera á hlustun og áhorfi? Er nokkuð á móti því? Og í lokin: Enn um leiknar auglýsingar. Ósköp er hvimleitt þegar svona auglýsingum er troðið inn í miðja þætti eins og þarna var gert.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar