«

»

Molar um málfar og miðla 1577

 

Fyrrverandi starfsbróðir í fréttamennsku sendi Molaskrifara eftirfarandi (22.09.2014): ,, „Ekkert dregur úr framleiðslu hrauns“ segir á Mbl.is. og er þar átt við eldgosið í Holuhrauni. Furðulegt að blaðamanninum skuli ekki hafa dottið í hug hið ágæta orð hraunrennsli. Stundum er eins og menn séu ekki að hugsa um það sem þeim er borgað fyrir að gera. – Molaskrifari þakkar bréfið og réttmæta ábendingu. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/22/ekkert_dregur_ur_framleidslu_hrauns/

 

Engar kröfur eru gerðar til ráðherra, eða þingmanna um vandað málfar. Ekki er svo sem hægt að ætlast til þess, en gott væri að sumir þeirra væru betur máli farnir, en raun ber vitni. Á Alþingi (22.09.2014) talaði innanríkisráðherra til dæmis um brýnara (verkefni). Orðið brýnara er ekki til. Brýnna hefði þetta átt að vera. Í sömu ræðu talaði ráðherra um að óvissa væri fyrir því að … Betur hefði farið á að tala um að óvíst væri að , eða óvissa ríkti um e-ð.

Aðgerðin er skynsöm fyrir stofnunina, sagði sjávarútvegsráðherra á Alþingi sama dag. Frekar ætti að tala um að eitthvað sé skynsamlegt varðandi tiltekna stofnun, en skynsamt.

 

Stundum veltir maður því fyrir sér hvort Ríkissjónvarpið sé svo upptekið af samkeppninni við Stöð tvö og Skjá einn um að sýna heldur léttvægt fjöldaframleitt amerískt afþreyingarefni að lögbundið menningarhlutverk verði hornreka, – sitji á hakanum.

 

Hæstaréttur hafnaði tillögu, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (22.09.2014). Hæstiréttur hafnaði tillögu, hefði hér átt að segja.

 

Einu sinni var efni Kastljóss kynnt í fréttum Ríkissjónvarps. Gott væri að taka þann sið upp aftur.

 

Það sjást batamerki á heimildamyndavali Ríkissjónvarpsins. Því ber að fagna og vonandi verður þar framhald á.

 

Í fréttum á mánudag (22.09.2014) var ítrekað nefnt fyrirtæki,sem sagt var heita Mjólkurbúið Kú! Átti þetta kannski að vera Mjólkurbúið Q? Orðið kýr beygist kýr,kú, kú, kýr. Nafngiftin virðist út úr kú, eins og stundum er sagt um eitthvað sem ekki er alveg í lagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>