«

»

Molar um málfar og miðla 1583

Snjóaði í fjöll í höfuðborginni, sagði í fyrirsögn á mbl.is (28.09.2014). Hvaða fjöll eru það nú aftur, sem eru í höfuðborginni? Öskjuhlíðin ?

http://www.ruv.is/frett/snjoad-i-fjoll-i-hofudborginni

 

Í fréttum um Estoniaslysið, sem varð fyrir tuttugu árum, var sagt í Ríkisútvarpinu klukkan 1500 á sunnudag (28.09.2014): ….  að kinnungurinn brotnaði hreinlega af.  Þetta er ekki mjög nákvæmt orðalag. Kinnungur er skipshlið, einkum næst stafni, bógur. Það sem gerðist og megin orsök þess að skipið sökk var að læsingar á stefnisdyrum gáfu sig í ofsaveðri, dyrnar brotnuðu af og skipið fylltist af sjó á örskammri stund. Muni Molaskrifari rétt.

 

Brynjar gerði athugasemd við notkun slettunnar standard í morgunþætti Ríkisútvarpsins (29.09.2014). Molaskrifari segir: ,, Ég hef nokkrum sinnum gert athugasemd við þetta ,,standard“ tal umsjónarmanna á hverjum degi. Þetta er notað í ensku yfir  gömul dægurlög. Óðinn Jónsson fyrverandi fréttastjóri  virðist staðráðinn í að troða þessari slettu inn í móðurmálið. Hversvegna ekki tala um gamla gullmola eða perlur? Til hvers starfar málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið ef ekki til að uppræta ambögur og óþarfar slettur, málspjöll? Er þetta gert með blessun og velþóknun starfsmannsins sem á að leiðbeina samverkafólki sínu um íslenskt mál og málnotkun?

Um þetta var einnig fjallað í Molum gærdagsins. – Í morgun (01.10.2014) var talað um standarð, það er líka sletta í þessari merkingu. En til er  gamalt orð  standarður um herfána, ríkisfána eða toppveifu. Það er annar handleggur. Einnig var talað um lífseigt lag. Það er ekkert að því.

 

Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (30.09.2014) var talað um útskúfuð börn. Nú má vel vera að þetta sé hárrétt orðalag og ekkert við það að athuga. Molaskrifari hefur samt á tilfinningunni að eðlilegra væri að tala um börn sem hafi verið útskúfað. Það fellur betur að málkennd hans. Hvað segja lesendur?

 

Molaskrifari gerir ekki mikið af því að lesa íþróttafréttir í blöðum. Í Morgunblaðinu á mánudag hnaut hann um þessa fyrirsögn: Dýr tækling Atla Más. Íþróttafréttamönnum hefur tekist að koma slettunni tækling og sögninni að tækla inn í málið. Það er ekki þakkarvert. En sennilega er of seint að andæfa. Í undirfyrirsögn segir: Vísað af velli og fékk mark í bakið. Molaskrifari las fréttina nokkuð vel, en sá þess engin merki að leikmaður hefði fengið mark í bakið! Þá er talað um í fréttinni að leikmaður hafi rænt annan færi? Lögreglan hefur væntanlega verið kölluð til.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góð spurning, Egill.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég rakst á þessa fyrirsögm á mbl.is í gærkvöldi.
    „Yfir hundrað eldingar mælst við landið“
    Einu sinni voru eldingar taldir en núna mældar. Hvernig ætli að sú mæling fari fram ?

    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>