«

»

Molar um málfar og miðla 1584

 

Rafn bendir á frétt á mbl. is (29.092014) þar sem segir: Um helm­ing­ur elli­líf­eyr­isþega heims­ins fær eng­an elli­líf­eyri. Hann spyr:,, Hvernig er hægt að kalla þá ellilífeyrisþega sem fá engan ellilífeyri? “ Svarið er: Það er auðvitað ekki hægt.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/30/helmingur_faer_ekki_ellilifeyri/

 

Úr fréttum Stöðvar 2 (29.09.2014): ,, Jón var saumaður ellefu spor î ennið”. Betra hefði verið: Sauma þurfti ellefu spor í skurð á enni Jóns. Eða: Ellefu spor þurfti til að loka skurði á enni Jóns.
Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: ,,Flug til Ísafjarðar var aflýst hjá Flugfélagi Íslands”. Betra hefði verið: Flugfélag Íslands aflýsti flugi til Ísafjarðar. Flug var ekki aflýst. Flugi var aflýst.
Þá var sagt um knattspyrnumann sem slasaðist í leik að honum hefði verið flogið með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Molaskrifari kann ekki að meta þetta orðalag. Maðurinn var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugvél.
Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps talaði (29.009.2014) um að kíkja aðeins a spánna. Æ algengara að heyra talað um spánna í staðinn fyrir spána.
Ríkissjónvarpið sýndi prýðilega heimildamynd um örlög skipalestarinnar PQ 13 sem sigldi frá Íslandi til Arkengelsk í júlí 1942. Molaskrifari sá þessa mynd á einhverri norrænu stöðvanna fyrir nokkrum mánuðum. Neðanmálstextarnir íslensku, sem myndinni fylgdu, voru illa þýddir, einkum framan af. Aftur og aftur var talað um sjó sem vatn. Sagt var, að skipalestin hefði verið vel rekin, – henni var vel stjórnað. Aftur og aftur var talað um þotur, sprengjuflugvélar, einkum af gerðinni Heinkel 111. Það voru engar þotur til 1942. Þetta þotutal var tómt rugl. Orðið materials var þýtt efni, en átt var við hergögn. Svo var talað um herskip á yfirborðinu og sjóketti. Óvenjuleg óvandvirkni. Yfirleitt eru vandaðir íslenskir textar með erlendu efni í Ríkissjónvarpinu. Það hefur gnótt góðra þýðenda á sínum snærum.

 

Kiljan stóð að venju fyrir sínu í gærkveldi (01.10.2014) Viðtal Egils við Sally Magnusson um bókina Where Memories Go, um veikindi móður hennar, hefur örugglega ekki látið neinn ósnortinn, sem þekkir til þessarar illvígu sjúkdóma hjá sínum nánustu. Takk.

 

Þær geta verið dálítið furðulegar þessar svokölluðu leiknu auglýsingar sem Rás eitt rekur nú inn í hlustir okkar daginn út og daginn inn. Í einni þeirra er boðið upp á að fegra herbergin hjá okkur og spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í stofunni? Næst verður sennilega spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í svefnherberginu? Það er dálítið magnað þetta nýja Ríkisútvarp okkar í Efstaleitinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>