«

»

Molar um málfar og miðla1586

Fyrrverandi starfsbróðir bendir á frétt á vef Ríkisútvarpsins á fimmtudag (02.10.2014). Hann segir: ,,Blessaður, félagi. Þetta er af vef Ríkisútvarpsins í morgun. Gafst upp við að telja villurnar. Raunar ætti að vera saknæmt að skrifa þvílíkan texta til opinberrar notkunar. Hversu lengi getur vont versnað ?”

Þegar Molaskrifari skoðaði fréttina á vef Ríkisútvarpsins var búið að stytta hana nokkuð og lagfæra en í upphaflegu fréttinni stóð meðal annars: Fry segist sjálfur ekki óttast að vera sakaður um kynferðisbrot, honum reki ekki minni til þess að hafa þuklað á nokkurri manneskju í óþökk viðkomandi. Og: ,,Margir hafi beðið álitshnekk fyrir að láta hann komast upp með brot sín áratugum saman...” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hér skortir ritstjórn, verkstjórn, eðlilegt eftirlit með því, sem kemur fyrir almenningsaugu. Það á að gera kröfur til fjölmennustu fréttastofu landsins. Miklar kröfur.

 

Í keppninni um verst skrifuðu frétt ársins kemur þessi frétt af visir.is (01.10.2014) vel til greina: http://www.visir.is/35-thusund-rostungar-strandadir-i-alaska/article/2014141009928

Sýnishorn: Ólíkt selum geta rostungar ekki synt til sjós án reglulegrar hvíldar og til þess þarf hafís.

 

Veturliði Þór Stefánsson skrifaði (02.10.2014): ,,Komdu sæll Eiður,
Vildi bara benda molaskrifara á þessu kauðslegu frétt ríkisútvarpsins:
http://www.ruv.is/frett/mannrettindi-brotin-a-gedsjukum-fongum

Hér er talað um „skýrslu umboðsmanns frá í fyrra“ og „Í skýrslu umboðsmanns Alþingis frá 2013“.
Hið rétta er að um að ræða skýrslu umboðsmann fyrir árið 2013 sem kom út 16. september sl. eins og kemur skýrt fram á heimasíðu umboðsmanns.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Vegna spurningar Molaskrifara um útskúfuð börn (Molar 1583) svaraði gamall skólabróðir, Sigurður Oddgeirsson nú búsettur í Danaveldi: ,,Mér finnst samhengi skipta hér mestu máli. Ekki gott að dæma um þetta svona samhengislaust. Þess vegna tel ég að það sé allt í lagi að tala um útskúfuð börn, en stundum er það samhengið sem getur gert greinarmuninn. Börn eru lifandi verur og þess vegna verður það kannski tilfinningamál. Manni finnst að athyglin eigi að vera á börnunum. Aftur á móti yrði kannski ekki það sama uppi á teningnum, ef um dauða hluti væri að ræða. Tökum dæmi:.Hvítskúruð gólf finnst mér fallegra mál en gólf, sem hafa verið hvítskúruð. Og sama gildir um kalkaðar grafir. Meiri reisn yfir því en grafir, sem hafa verið kalkaðar.” Molaskrifari þakkar Sigurði kærlega fyrir svarið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>