Molavin vakti athygli á þessari fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins Kjósa um verkfall í tónlistarskólum. Hann spyr: ,, Eru kosningar í skólum – eða eru kennarar að greiða atkvæði um hvort boða skuli verkfall? Fyrirsögn RÚV í dag (5.10.14) segir eitt, fréttin annað.”
http://www.ruv.is/frett/kjosa-um-verkfall-i-tonlistarskolum
Molaskrifari þakkar ábendinguna og bætir við:
Í hádegisfréttum Ríkissútvarps á föstudag (03.10.2014) var í frétt frá Svíþjóð hvað eftir annað talað um að kjósa með fjárlögum. Atkvæði eru greidd um lagafrumvörp. Um þau er ekki kosið. Eins eru greidd atkvæði í stéttarfélögum um hvort boða skuli til verkfalls. Getur málfarsráðunautur ekki skýrt þetta fyrir þeim fréttamönnum, sem hér eiga hlut að máli? Þetta er í rauninni ekkert flókið. – Í Morgunblaðinu Í dag (06.10.2014) er svohljóðandi fyrirsögn á bls. 2 : Tónlistarkennarar kjósa um verkfall! Það er víðar pottur brotinn en í Efstaleitinu!
Okkur viðskiptavinum Ríkisútvarpsins finnst það mörgum dálítið sérstakt að á sama tíma og Ríkisútvarpið getur ekki greitt skuldir sínar, – verður að biðja lánardrottna um gjaldfrest, er ómældum fjármunum sturtað í vitleysu sem kölluð er Hraðfréttir og gengur mest út á fíflagang.
Sagt er í dagskrárkynningum Ríkissjónvarps : ,,Fréttastofa Hraðfrétta hefur öðlast sjálfstæði …” Hefur sem sagt verið stofnuð ný fréttastofa í Efstaleiti? Þegar annarstaðar er rekið, þá er ráðið nýtt fólk til starfa við hina nýju fréttastofu! Það er ekki nokkur leið að hafa samúð með Ríkisútvarpinu vegna fjárhagshremminga meðan fé er sólundað með svo opinskáum hætti.
Í símsvara DV var þeim sem hringdu á föstudag (03.10.2014) tilkynnt að vegna tækniörðugleika mundi blaðið ekki berast út fyrr en á laugardag. Átt var við að blaðið kæmi ekki út fyrr en á laugardag. Bærist ekki áskrifendum fyrr en á laugardag.
Nú er ekki lengur aðeins talað um saksónara (saksóknara) á Stöð tvö (03.10.2014). Nú er líka talað um saksnara. Þarna gæti talþjálfun komið að góðu gagni.
Molaskrifari gerir ráð fyrir að ýmsum hafi þótt næsta furðulegt að heyra fréttamann Stöðvar tvö yfirheyra nýsettan ríkissaksóknara í málinu varðandi hugsanlega endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmála, um kunnáttu hans í lögfræði, einkum þó í refsirétti (03.10.2014).
Hversvegna þótti ástæða til að lítilsvirða bandaríska þjóðsönginn í svonefndum Hraðfréttum Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (03.10.2014)? Molaskrifara finnst óskiljanlegt að stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi skuli láta hafa sig í það að taka þátt í þessum fíflagangi. Þorir fólk ekki að segja nei takk, ef því er boðið að birtast á skjánum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar