Rafn skrifaði (29.10.2014): ,,Í mola nr. 1603 er vikið að enskuslettunni „tax free“ og mis- og ofnotkun hennar. Ofan á þessa mis- og ofnotkun bætist, að notendur slettunnar virðast alls ekki skilja þá slettu, sem þeir eru þó að nota. Samkvæmt almennum málskilningi er „tax free“ notað um verð án virðisaukaskatts, það er um verð með 20,32% afslætti, það er söluverð 79,68% upphaflegs verðs miðað við almennt virðisaukaskattshlutfall á Íslandi.
Í mjög mörgum tilvikum er hins vegar boðið upp á „tax free“ af verði auglýstrar vöru.
Það hlýtur samkvæmt almennum málskilningi að merkja, að varan sé lækkuð um „tax free“ verð eða um 79,68% og nýtt söluverð því 20,32% fyrra verðs. Ég hefi grun um, að sú sé þó ekki meining auglýsenda, en þetta mælir ekki síður, en almenn málfarsrök gegn notkun slettunnar, sem meira að segja notendur hennar virðast ekki skilja.” – Þakka bréfið, Rafn.
Í huga Molaskrifara hefur orðið einkavæðing tvennskonar merkingu. Orðabókin birtir aðeins aðra: Að selja fyrirtæki í opinberri eigu til einkaaðila (einstaklinga eða fyrirtækja). Molaskrifari er á því, að sögnin að einkavæði þýði einnig að fela einkaaðilum, fyrirtækjum eða einstaklingum að annast þjónustu, sem hið opinbera, ríki eða sveitarfélög hafa áður haft með höndum. Í því þarf ekki að felast neins konar sala, einkaleyfi eða einokun. Mörg slík fyrirtæki starfa hér samhliða fyrirtækjum, sem rekin eru af ríki eða sveitarfélögum.
Orðið einkavæðing hefur hinsvegar fengið neikvæða merkingu í málinu, ekki síst vegna þess að stjórnmálamenn hafa ,,selt” eða fært vinum sínum á silfurfati eignir úr eigu hins opinbera. Þarf að nefna einkavæðingu ríkisbankanna? Þar hefur ágætlega verið sagt að um einkavinavæðingu hafi verið að ræða.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.10.2014) var rætt um heilbrigðismál, meðal annars þjónustu við aldraða. Fagna ber málfarsumræðu á þessum vettvangi. Hjá umsjónarmönnum þótti Molaskrifara koma fram fremur neikvæður tónn í orðinu einkavæðing. Viðmælandi þeirra benti þeim á að einkavæðing í þessum efnum hefði verið hér við lýði frá árinu 1922 (Grund) . Nú um stundir er hjúkrunarþjónusta við aldraða rekin af einkaaðilum með frábærum árangri, þannig að til mikillar fyrirmyndar er (Sóltún, til dæmis). Ekkert er að því að opinber rekstur og einkarekstur dafni hlið við hlið. Við höfum að vísu séð hörmuleg dæmi um stórfelld fjármálamistök í einkareknum rekstri á þessu sviði (Eir). Þar var ekki við kerfið að sakast, heldur þá sem áttu að stýra kerfinu og hafa stjórn á fjármálunum.
Í Noregi er til dæmis alls ekki öll þjónusta heilbrigðiskerfisins á vegum hins opinbera eins og oft er látið í veðri vaka. Molaskrifari og eiginkona hans bjuggu í Noregi í fimm ár. Nutu þar þjónustu einkarekinnar heilsugæslustöðvar , – hún var næst okkur. Fengum þar góða þjónustu og ekki varð þess vart að neinn styrr stæði um þann rekstur. Í Kanada áttum við góð samskipti við heilsugæslustöð í eigu tveggja lækna, bræðra sem voru af íslensku bergi brotnir. Ekki virtist einkareksturinn valda vandræðum þar.
Stundum fá orð neikvæða, gildishlaðna merkingu að ósekju. Víkka þarf merkingarsvið orðsins einkavæðing í Íslenskri orðabók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar