«

»

Molar um málfar og miðla 1616

Molavin skrifaði (17.11.2014): ,,Sumar ábendingar þarf að endurtaka einum of oft og virðist samt varla duga. Í kvöldfréttum Útvarps (17.11.2014) gerði fulltrúi Landhelgisgæslunnar með skýrum og góðum hætti grein fyrir ýmsum rekstrarmálum varðskipa – en talaði samt um „áhafnarmeðlimi“ þeirra. Þessi samsetningur er óyrði, óværa í málinu þegar við eigum til svo sígilt orð sem „skipverji.“ “ Molaskrifari þakkar bréfið og  tekur undir það sem þar er sagt. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.

 

Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (14.11.2014) um geimfar sem lenti á halastjörnu:,, Það situr í skugga klettar á halastjörnunni og því ljóst að það fær ekki sólarljós til að hlaða rafhlöðurnar’’. Eignarfall nafnorðsins klettur er kletts, ekki klettar! http://www.ruv.is/frett/rafhlodur-philae-klarast-liklega-i-dag

 

Í Fréttatímanum (14.-16.11.2014) segir:,, Konur á aldrinum 16-24 ára versluðu um 85% alls þess fatnaðar ….”. Enn einu sinni ruglað saman sögnunum að kaupa og versla. Hér hefði átt að segja að konurnar hefðu keypt um 85% alls þess fatnaðar …

 

Stundum rekur mann í rogastans yfir spurningum fréttamanna. Í fréttum Ríkisútvarps (14.11.2014) var aðstoðarlögreglustjóri spurður um það hver væri stefna lögreglunnar í vændiskaupamálum!!!  Á viðtalinu öllu var  nokkur viðvaningsbragur.

 

Molaskrifari hefur alltaf gaman af að horfa á Útsvarið,- þótt mörgum þyki það staðnað. Þættirnir renna vel og lipurlega á skjánum. Það góða við svona þætti er að þeir gefa kost á þátttöku þeirra sem heima sitja, – og geta glímt við spurningarnar. Molaskrifari upplifir það oft að hann hefur ekki hugmynd um svör við spurningum, sem yngri þátttakendur fara létt með, en svo koma spurningar sem hann er aldeilis hissa á að þátttakendur skuli ekki svara samstundis !!! Þetta hefur líklega eitthvað með aldurinn að gera.

 

Úr frétt á mbl.is (15.11.2014): Kon­an er 23 ára og kem­ur frá Ítal­íu. Æ algengara er að sjá svona tekið til orða. Betra hefði verið: Konan er ítölsk, 23 ára. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/15/fell_utbyrdist_og_slasadist_illa/

Sama dag var sagt í sama miðli: Í fyrra seld­ust 616 lítr­ar af jóla­bjór og hef­ur sal­an aldrei verið meiri. Sennilega hefur vantað þarna orðið þúsund. En þetta þarf kannski ekki að vera svo nákvæmt. Sólarhring seinna var þetta óleiðrétt á vef mbl.is.

Molalesandi benti á þetta á mbl.is (15.11.2014) : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/15/fann_tviburasystir_sina_a_youtube/

Þarna segir: Fann tvíburasystir sína á youtube. Þetta var leiðrétt síðar.

Í fréttum Ríkisútvarps á sunnudag (16.11.2014) var talað  um konungsfjölskylduna í Mónakó. Er ekki Mónakó furstadæmi og þjóðhöfðinginn fursti? Sama dag var sagt: ,,Honum var haldið í sama fangaklefa og breski hjálparstarfsmaðurinn ……” Fljótfærnisvilla: Honum var haldið í sama fangaklefa og breska hjálparstarfsmanninum …

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>