Tvímælalaust hefur kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins batnað undanfarna mánuði. Enn meiri framför hefur þó orðið í vali heimildamynda til sýninga þar á bæ. Fjölbreyttara efni, nýrri myndir, fréttaskýringaþættir öðru hverju og áhugaverðara efni þegar á heildina er litið, að ekki sé sagt svona heilt yfir eins og hver fjölmiðlungurinn étur upp eftir öðrum um þessar mundir ! Þetta er skoðun Molaskrifara, sem hættir kannski stundum til að gagnrýna of margt og vera spar á hrósið. En þetta geta flestir sennilega tekið undir.
Steini skrifaði (16.11.2014): „Þetta er ekki eitthvað sem við gerðum illa eða þeir gerðu vel, heldur er þetta sambland af hvoru tveggja.“ (mbl.is 16. nóv, á degi íslenskrar tungu) -segir þjálfari landsliðs í fótbolta eftir leik við Tékka og er hvorki betri né verri í að tjá hugsun sín á mæltu máli en margir íþróttamenn sem teknir eru tali í fjölmiðlum…
…þegar viðmælendur láta svona speki út úr sér eiga blaðamenn að spyrja hvað verið sé að meina. – Molaskrifari þakkar bréfið.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.1l.2014) vitnaði umsjónarmaður í DV og talaði um þrenn símtöl. Á forsíðu DV þennan dag er fyrirsögn með stóru letri: Þrjú símtöl á lekadegi. Umsjónarmaður hefur ef til vill ætlað að leiðrétta DV, en þarna var ekki leiðréttingar þörf. Ekkert við fyrirsögn DV að athuga. Að tala um þrenn símtöl er út í hött og rangt. Gera verður kröfur til umsjónarmanna þátta í Ríkisútvarpinu að þeir hafi betra vald á móðurmálinu, en þetta dæmi sýnir. Því miður fljúga ambögurnar frá þessum þætti um ljósvakann á morgnana.
Af visir.is (17.11.2014): Gangandi vegfarandi í borginni Guadalajara í Mexíkó ofbauð framkoma ökumanna í borginni á dögunum. Hér ætti að standa: Gangandi vegfaranda ofbauð …. http://www.visir.is/ofbaud-framkoma-okumanna/article/2014141119021
Í útvarpsþætti á laugardagskvöld (15.11.2014) var talað um annasamt fólk. Það er ekki rétt notkun þess orðs. Átt var við fólki í önnum, fólk sem átti annríkt, önnum kafið fólk.
Tískuorð spretta upp og hverfa svo , – oftast nær. Mjög er í tísku um þessar mundir að samsinna, jánka einhverju með því að segja algjörlega. Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins notaði umsjónarmaður þetta orð tvisvar sinnum á sömu mínútunni. Í þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö (16.11.2014) var rætt um ofnotkun orðsins geðveikt, sem nú er í tísku sem slanguryrði um eitthvað sem er stórkostlegt eða mjög gott. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins samsinnti með því að segja: Algjörlega! ,,Geðveikt gaman” – er fyrirsögn í DV (18.-20.11.2014).
Það var annars fróðlegt og skemmtilegt að hlýða á athugasemdir hlustenda um íslenskt mál í þessum þætti. Þar var minnst á margt sem nefnt hefur verið í Molum og gaman að finna lifandi áhuga fólks á tungunni, – sem Molaskrifari skynjar ærið oft, þegar honum eru þökkuð þessi skrif. Nánari verður vikið að þessu spjalli um tunguna í Molum síðar, – en Molaskrifari hrökk svolítið við þegar sagt var undir lokin að nú þyrfti að setja auglýsingapakka í loftið. Auglýsingapakkar og íþróttapakkar eru pakkar sem við getum alveg verið án. Þeir koma óþarflega oft við sögu í Ríkisútvarpinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar