Molaskrifari er ekki sérstaklega viðbrigðinn. En honum verður oft hverft við, þegar hann hlustar á þægilega lesnar tilkynningar / auglýsingar á Rás eitt,meðan beðið er eftir fréttum, en svo er hljóðstyrkurinn allt í einu aukinn og byrjað er að æpa á okkur undir yfirskini auglýsinga. Ríkisútvarpið ætti sem fyrst að láta af þessari hvimleiðu nýjung.
Í málfarsspjalli þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö (16.11.2014) var meðal annars vikið að málfari í auglýsingum. Rétt er það , sem þar kom fram, að margt mætti þar betur fara. Það er eins og of margar auglýsingastofur skorti metnað til að gera vel í þessum efnum. Auglýsingastofur semja auglýsingar þar sem tönnlast er á slettunni Tax-free, sem ekki er íslenska og er líka ósönn fullyrðing, því enginn sleppur við að borga skatt af því sem þarna er auglýst Verið er að veita afslátt, sem nemur ekki einu sinni upphæð virðisaukaskattsins eins og ranglega er gefið í skyn. Auglýsingastofur gætu tekið sig saman um að útrýma þessari slettu. Og öðrum slettum sem þær hafa innleitt eins og bröns. Gæti sem best heitið dögurður, eins og lagt hefur verið til.
Ríkisútvarpið getur líka lagt fram sinn skerf í þessum efnum og fylgt reglunni, sem enn er í gildi um að auglýsingar skuli vetra á lýtalausri íslensku. Þeirri reglu er ekki fylgt. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðist taka við öllu sem að henni er rétt og birta allt sem borgað er fyrir. Þessu getur Ríkisútvarpið breytt, ef vilji er til staðar. Það er á valdi Ríkisútvarpsins að bæta málfar í auglýsingum í Ríkisútvarpinu.
Gaman var á þriðjudagskvöld (18.11.2014) að hlusta á dr. Kristján Eldjárn hefja lestur nýrrar kvöldsögu, Eiríks sögu rauða á Rás eitt. Lesin inn á band fyrir meira en hálfri öld. Margar gersemar eru í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Okkur ber skylda til að tryggja varðveislu þeirra. Margt mun nú liggja þar undir skemmdum. Þar er efni sem ekki má fara forgörðum.
Tók málið í eigin hendur, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (19.11.2014).Ekki rangt. En sterkt er í íslensku að tala um að taka málin í sínar hendur. Láta til skarar skríða, hefja verkið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Kristján skrifar:
20/11/2014 at 13:19 (UTC 0)
Það mætti líka lækka í þessum bansettu óhljóðum í upphafi íþróttaþáttarins. Betra væri reyndar að losna við þau alfarið og skipta um stef.
Í sjöfréttum í gær, voru fréttir af kuldakastinu í USA. í kjölfarið var veðurfræðingur kominn við hlið fréttamanns til að fræða okkur betur um þetta. Eða svo hélt ég og að mér sýndist Einari líka. Fréttamaður, Jóhanna, spurði hins vegar hvernig veðrið yrði hjá okkur á morgun, sem virtist koma Einari í opna skjöldu. Hann var með veðurtunglamyndir til að sýna okkur áhrif frá vötnunum miklu: The great lakes.
Svo voru fluttar fleiri fréttir. Þetta var ekki í lok fréttatíma og Jóhanna var ekki með á nótunum.