«

»

Molar um málfar og miðla 1678

 

Molavin sendi þetta ágæta bréf (17.02.2015): ,,Það er trúlega blanda af öllu þessu; þekkingarleysi, hugsunarleysi og eftirlitsleysi. þegar fyrirsagnir af þessu tagi verða til: BETRA AÐ SOFA EN SNÚSA LENGI (Fréttablaðið 17.2.2015). Þessi „ísl-enska“ er þó höfð orðrétt eftir formanni Hins íslenska svefnrannsóknafélags. „Snooze“ er enska og merkir að dorma áfram, blunda eða sofa létt. Jafnvel „næla sér i kríu“. Snúss er hins vegar þekkt og gamalt heiti á neftóbaki og „að snússa“ merkir að taka í nefið. Ég held að doktorinn, sem rætt var við, hafi ekki átt við það. Íslenzkan er svo rík af orðum, að óþarfi er að sletta ensku eða reyna að búa til nýyrði með slíkum hráþýðingum.

 

Að öðru: „1 tafla 1 sinnum á dag“ segir á lyfjaboxi. Trúlega er þetta prentað úr tölvu, sem verður ekki sökuð um slæma málkennd, en forritarar hljóta að geta gert betur.

 

„Garbage in – garbage out“ var sagt í árdaga tölvutækni, þegar menn kenndu tölvunni um. Norskur háskólaprófessor minn í gamla daga var óspar á svipaðar umvandanir þegar honum fannst einhverjir ekki vanda sig: Sljó hugsun – slæmur texti, sagði hann (þó á norsku) og svipað mættu yfirmenn fjölmiðla iðulega segja nýliðum sínum.”

Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (18.02.2015) var talað um fjallabelti. Sennilega var átt við það sem hingað til hefur verið kallað fjallgarður á íslensku.

 

Mánaðarblaðið nýja, Stundin, barst Molaskrifara á miðvikudagsmorgni. Efnismikið blað og sýnist heldur lofa góðu.

 

Kiljan á miðvikudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu er alltaf skemmtileg blanda af bókmenntum og menningarsögulegum fróðleik af mörgu tagi. Myndvinnsla jafnan vönduð og smekkleg.

Ekki er þó Molaskrifari viss um að það sé rétt hjá Agli að Reykvíkingum sé heldur í nöp við Hallgrímskirkju. Hann hallast að því að þeir hafi fyrir löngu tekið hana í sátt. Ef Molaskrifari er ekki á hraðferð og á leið um Skólavörðuholtið sest hann stundum inn í kirkjuna. Þá kemur fyrir að verið er að leika á hið stórkostlega orgel kirkjunnar. Það eru góðar stundir.

 

Það er misskilingur,sem fram kemur í sjónvarpsauglýsingu frá Mænuskaðafélagi Íslands, að utanríkisráðuneytið flytji tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland flytur tillögurnar.

 

allgrímskui Hallgrímskirkju. Stundumer hann svo heppinn aðp  einhver snmillingurinn er að s kirkjun

 

Forseti lýðveldisins flandrar nú um heiminn og nýtur samvista við ríka og fína fólkið. Það á nú við hana Vindu! Sækir brúðkaup milljarðamæringa og blandar geði við forystumenn ríkja þar sem mannréttindi mest eru fótumtroðin, – eins og til dæmis í Arabísku furstadæmunum. Kom svo við hjá kónginum á Spáni svona í leiðinni. Morgunblaðið gerði þessu flakki forsetans nokkur skil á þriðjudag (17.02.2015). Þar sagði: ,, … og átt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan”. Forsetinn hafði snætt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan. Hann átti ekki hádegisverð konungsfjölskyldunni. Sennilega er hér um bein áhrif úr ensku að ræða, … had lunch with the royal family…

En spyrja mætti, – borgar íslenska þjóðin ferð forseta í snobbbrúðkaup á Indlandi? Skrítið, ef sú er raunin.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Ingveldur Róbertsdóttir skrifar:

    Í framhaldi af athugasemdinni við sagnorðið að snúsa, langar mig til að nefna nokkur orð: aðventa, verönd, braggi/brakki, jeppi.
    Kærar kveðjur,
    IR

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>