«

»

Molar um málfar og miðla 1719

 

Þeir sem lesa veðurfregnir í Ríkisútvarpinu gera það yfirleitt vel, eru áheyrilegir og skýrmæltir. Frá þessu eru þó undantekningar, – öðru hverju. Ótrúlegt, að ráðamenn á Veðurstofunni skuli ekki heyra þetta , eða láta lakan lestur, sem vind um eyru þjóta.

Nýir veðurfræðingar, ásamt öðrum eldri og reyndari, koma nú starfa í veðurfréttum Ríkissjónvarps.

Í Morgunblaðinu (28.04.2015) kom fram að auk Einars Sveinbjörnssonar koma til starfa Sigurður Jónsson og Hrafn Magnússon. Fréttastjóri Ríkissútvarpsins segir í blaðinu, að til athugunar sé ýmislegt til að bæta og efla þennan þátt fréttanna,- veðrið. Því ber að fagna. Það er reynsla Molaskrifara að Íslendingar hafa ódrepandi áhuga á veðrinu. Vonandi tekst að koma borganöfnum á veðurkortin eins og er gert hjá öðrum sjónvarpsstöðvum. Hér hefur það oft verið nefnt. Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur hefur sýnt okkur að þetta er hægt. Svo má gjarnan segja okkur meira og reglubundið frá veðrinu í öðrum hlutum heims.

 

Fyrirsögn af visir.is (29.04.2015): Yfirheyrslu yfir Ingólfi lokið sem átti svör við fæstum spurningum saksóknara. Molaskrifara finnst skorta rétta hugsun í þessa fyrirsögn. Eðlilegra hefði verið að segja, til dæmis: Yfirheyrslu yfir Ingólfi lokið. Átti fá svör við spurningum saksóknara, – eða svaraði fáum spurningum saksóknara.

http://www.visir.is/yfirheyrslu-yfir-ingolfi-lokid-sem-atti-svor-vid-faestum-spurningum-saksoknara/article/2015150439955

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.04.2015) talaði umsjónarmaður um kvikmyndabransann. Svo sem ekki nýtt. Umsjónarmenn eiga að vanda mál sitt. Ríkisútvarpið á að láta það ógert að festa orðið bransi í sessi yfir starfsgrein eða starfsemi. Það er óþarfi.

Í sama þætti (30.04.2015) sagði umsjónarmaður efnislega um samningaviðræðurnar sem nú standa yfir: Þið segið að lausnamiðaðar viðræður hafi ekki átt sér stað .

Molaskrifari hélt reyndar að allar samningaviðræður deiluaðila miðuðu að því að finna lausn á deilum. Og svo enn sé talað um málfar í þessum þætti talaði umsjónarmaður á fimmtudagsmorgni um ofn sem staðsettur væri í kjarnorkuveri. Greinilegt er að þarna hefur fólk ekki einu sinni heyrt bergmálið af málfarsumræðunni að undanförnu um orðið staðsettur! Molaskrifari man ekki betur en málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafi einmitt svo ágætlega fjallað um staðsetningaráráttuna.

 

Á kynningarblaði frá Listaháskóla Íslands um útskriftarhátíð stendur: Frá miðjum apríl til lok maí verður útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands haldin. Til loka maí, hefði þetta fremur átt að vera.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (29.04.2015) var sagt að ný varaaflsstöð hefði verið vígð í Bolungarvík. Stöðin var formlega tekin í notkun eins og Heimir Már Pétursson fréttamaður sagði réttilega sagði í fréttinni. Hún var ekki vígð.

 

IKEA auglýsir Pulled pork samloku. Með BBQ svínakjöti.Notar ekki einu sinni gæsalappir. Hvað í ósköpunum skyldi þetta vera? Margt vont, sem frá auglýsingatsofum kemur, nota fyrirtæki gagnrýnilaust. Skoðanaleysi gagnagvart vönduðu málfari er ríkjandi á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Oddgeirsson skrifar:

    Til loka maí. Mér finnst miklu fallegra og íslenzkulegra að segja „..frá miðjum apríl til maíloka“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>