«

»

Molar um málfar og miðla 1720

Síðdegis á laugardag (02.05.2015) átti Molaskrifari leið um sunnanvert Snæfellsnes. Gamalkunnar slóðir úr pólitískum ferðalögum fyrri ára. Þá brunnu þar sinueldar, sunnan vegar. Slökkvilið komið á vettvang og bændur á traktorum með haugsugudælur. Erfitt virtist að komast eldunum. Sendi tvær myndir af brunanum klukkan 19:06 á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Mbl.is birti mynd og frétt frá fréttamanni sínum, ágætum vini mínum, Sigurði Boga Sævarssyni ,sem allstaðar er, þar sem eitthvað er að gerast,  klukkan 1945. Myndina sem ég sendi, sá ég ekki á vef Ríkisútvarpsins fyrr en klukkan 23:35 um kvöldið og heyrði ekki af brunanum í tíu fréttum útvarps um kvöldið. Það kann þó að hafa farið fram hjá mér. Svona geta menn verið misfljótir að bregðast við eða fréttamatið misjafnt. – Ekkert heyrði ég frá fréttastofu Ríkisútvarpsins um að myndirnar hefðu borist þangað. En mynd var birt og ljósmyndara skilmerkilega getið, óumbeðið. Ekki vantaði það. Ekki var sagt svo mikið sem svei þér eða myndasendingin þökkuð. En auðvitað má maður ekki gera of miklar kröfur. Kurteisi kostar reyndar ekki neitt. En það var svo sem ekkert að þakka. Þetta var minn gamli vinnustaður, – í meira en tíu ár. Taugarnar til hans hafa kannski trosnað svolítið, en ekki slitnað. – Gaman að þessu í aðra röndina! Kannski fara fréttanæmar myndir bara eitthvað annað næst. Oft með myndsímann á lofti. Hver veit? Fréttabakteríuna er ekki hægt að uppræta. Hún er fjári lífseig. Og eiginlega óviðráðanleg. Rétt eins og pólitíska bakterían!!!

 

K.Þ. Benti á frétt á pressan.is (02.05.2015). Hann segir:,, Í þessari frétt stendur „Íbúar í bökkunum er brugðið … …“ Molaskrifari þakkar ábendinguna.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/mikil-reidi-i-breidholti-unglingar-unnu-skemmdarverk-a-tugum-bila—speglar-sparkadir-af-og-rudur-brotnar

 

Hvað eftir annað þessa daga má heyra fréttamenn tala um Laundeyjarhöfn. Landeyjahöfn ætti það að vera,- höfnin er kennd við Landeyjar, ekki Landey. Svo ættu ráðamenn að hlusta meira á þá sem stýra Herjólfi en þá sem sitja við módelsmíðar og grúfa sig yfir excelskjöl, – með fullri virðingu – fyrir öllum. Eins og er, þá er höfnin meira og minna ónóthæf og skiptir nýr Herjólfur með milljarðakostnað í för með sér þar engu máli. Hann breytir ekki sandstreyminu en skattgreiðendur þurfa að borga brúsann. Hlustið á sjómennina.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>