«

»

Molar um málfar og miðla 1726

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (29.05.2015): ,,Enginn maður hefur gengt ráðherraembættum lengur en Halldór en hann sat á Alþingi í rúm þrjátíu ár,“ sagði Heimir Már Pétursson í fréttum Stöðvar 2 fimmtudaginn 28. maí þegar Halldórs Ásgrímsson var jarðsettur. ,,Á hverju skyldi hann hafa reist þessa skoðun? Í Handbók Alþingis segir, að Halldór hafi setið næst lengst sem ráðherra, rúm 19 ár, lengst hafi setið Bjarni Benediktsson eldri, rúm 20 ár. “– Rétt skal vera rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Fréttamenn eiga að fara varlega í fullyrðingum og kanna heimildir, – eins og til dæmis Handbók Alþingis í þessu tilviki. Ekki bara hafa eftir það sem annarsstaðar hefur verið , stundum ranglega -, sagt.

 

Ef Ísland sigrar Evróvisjón, – auglýsti Netgíró á dögunum. Það lærist seint, bæði fréttastofum og auglýsingastofum, að það sigrar enginn keppni. Er alveg ómögulegt að hafa þetta rétt?

 

Í Vikulokum Ríkisútvarpsins nýlega talaði ritstjóri um að gera því skóna. Rétt er að tala um að gera einhverju skóna, gera ráð fyrir einhverju , spá einhverju. Hefur verið nefnt hér áður.

 

Er Molaskrifari einn um að vera farinn að þreytast svolítið á því að heyra sífellt í fréttum að unnið sé hörðum höndum, að öllu milli himins og jarðar. Þálítið einhæft og þreytandi til lengdar.

 

Hvað eruð til tilbúnir að ganga langt? Svona spurði fréttamaður samningamann í kjaraviðræðunum í síðustu viku. Hvernig í ósköpunum datt fréttamanni í hug að viðmælandi hans gæti svarað þeirri spurningu?

 

Með góðum árangri gera hinar hallærislegu Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins út á hégómagirnd  stjórnmálamanna og þotuliðs. Ótrúlega margir reynast tilbúnir  til að láta hafa sig að fífli fyrir augnablik á skjánum.

 

Skyldi þáttaröðin Glæpahneigð og endalausir þættir um löggur og slökkviliðsmenn vera efni, sem Ríkissjónvarpið er búið kaupa til næstu fimm ára, eða svo? Er þetta endalaust?

 

Í fréttum Stöðvar tvö var nýlega (14.05.2015) sagt um hópferð hjólreiðamanna: Hópurinn lagði af stað frá versluninni Örninn í Skeifunni.  Frá versluninni Erninum í Skeifunni. Beygja. Í gamla daga sögðu börn og unglingar: Hjólið mitt er í viðgerð  í Erninum, –  eða í Fálkanum. Í sama fréttatíma var sagt: Forseti Íslands mun eiga afmæli í dag. Þar var ekkert mun.  Forseti Íslands átti afmæli þennan dag, 14. maí.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>