«

»

Molar um málfar og miðla 1727

 

Í auglýsingablaði um stóreldhús frá Ekru,sem fylgdi Fréttablaðinu á laugardag (30.05.2015) segir á forsíðu:  Það felst mikill sparnaður í því að versla alla matvöru á einum stað. Við verslum ekki matvöru. Við kaupum matvöru.

Þar segir líka: Nýlega hóf fyrirtækið að selja matvöru í erlend skemmtiferðaskip sem stoppa hér á landi yfir sumartímann, en mikill vöxtur er í þeirra þjónustu. Þennan texta hefði þurft að lesa yfir. Æ oftar sést og heyrist röng notkun sagnarinnar að versla.  Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) talaði alþingismaður (efnislega) um að auðvelda fólki að versla þessa vöru.  Að kaupa þessa vöru, hefði það átt að vera.

 

Gæsluvélin bjargar 5000 manns,segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.06.2015). Fyrirsögnin er ekki í samræmi við það sem segir í fréttinni. http://www.ruv.is/frett/gaesluvelin-bjargar-5000-manns  Flugvél Gæslunnar átti þátt í björgun 5000 flóttamanna.

Á fréttavefnum sama dag segir í íþróttafrétt: ,,Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason gæti verið lánaður frá spænska liðinu Real Sociedad til enska úrvalsdeildarliðsins Everton á næstu leiktíð”. Gæti verið lánaður !  Ekki vel orðað. http://www.ruv.is/frett/alfred-finnbogason-gaeti-farid-til-everton

 

Bylgjan auglýsir too hot for you sósu (29.05.2015). Hversvegna ekki tala við okkur á íslensku?

 

Þá er við komin á rúmsjó, sagði formaður fjárlaganefndar í Viklokunum í Ríkisútvarpinu (30.05.2015). Sennilega átti konan við,að þá værum við komin á lygnan sjó. Það er ekki alltaf logn úti á rúmsjó. Þegar notaðar eru myndlíkingar er betra að fólk viti hvað þær merkja.

 

Undarleg, löng frétt, af mótmælum í Bandaríkjunum þar sem ekkert gerðist, var í átta fréttum Ríkisútvarps þennan sama laugardagsmorgun. Fréttin hefst á 01:55 – http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunfrettir/20150530

Oft veltir maður fréttamatinu fyrir sér. Auðvitað sýnist sitt hverjum.

 

Enn tala þeir í Ríkissjónvarpinu um íþróttafréttirnar sem íþróttapakka. Ekki bara að pakkarnir séu stórir eða þéttir! Á laugardagskvöld (30.05.2015) að margt væri að gerast í íþróttapakkanum!

Meira um íþróttafréttir þennan sama dag: Í hádegisfréttum sagði íþróttafréttamaður: Einar tryggði sér bráðabana með því að ná fugl á átjándu holu. Að ná fugli er að leika golfbraut á einu höggi undir pari, eins og sagt er á golfmáli. Ættað úr ensku , birdie.

Þetta má heyra á 18:02 http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20150530

Í þessum sama íþróttafréttatíma var líka talað um að spila stórt hlutverk.  Ekki mjög vandað orðalag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Stórum betra.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Hvernig væri: Mikill sparnaður felst í því að versla til eldhússins á einum stað.?
    Eða: Mikill sparnaður felst í því að versla á einum stað.?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>