«

»

Molar um málfar og miðla 1751

RÝR EFTIRTEKJA

Ríkissjónvarpið gerði fréttamann út af örkinni með forsætisráðherra, SDG, til Brussel fyrir nokkrum dögum. Ráðherra fór í tilgangslausa og illa tímasetta ferð. Heldur var fréttaeftirtekjan rýr og var þar ekki við ágætan fréttamann Ríkisútvarpsins að sakast. Við fengum að vita, að fundurinn með Donald Tusk forseta leiðtogaráðs ESB hefði verið ,, óvenju afslappaður og skemmtilegur”. Þetta var eiginlega það fréttnæmasta úr ferð SDG.  Það bitastæðasta, sem situr eftir úr fréttum af þessari ferð, var viðtal við Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Brussel.

Stöð tvö sendi hinsvegar fréttamann til Aþenu. Það var skynsamleg ákvörðun og eftirtekjan meiri.

 

HEIMSMEISTARAR

Hverjir eru heimsmeistarar Þýskalands, sem talað var um í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (09.07.2015)? Þetta orðalag heyrist reyndar aftur og aftur í íþróttafréttum. Er átt við þýsku heimsmeistarana? Sennilega.

 

BORGARNES

Einn af hraðfréttamönnum, svokölluðum, í Ríkissjónvarpi sagði áhorfendum í þættinum Sumardögum að í næstu viku yrðu þeir á Borgarnesi. Ekki virðast gerðar kröfur um að þeir sem þarna koma fram séu sæmilega að sér um íslenskt mál.

 

NAUTGRIPASMALI

Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í Morgunblaðinu (10.07.2015) segir um persónu í kvikmyndinni Kjaftaskar úr kaupstaðnum, City Slickers: ,,..ákveður að hrista upp í tilverunni með því að gerast nautgripasmali í villta vestrinu”. Nautgripasmali? Er það ekki kúreki?

 

DAGLEIÐ

,, … í sjöttu dagsleiðinni í dag”, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í seinni fréttum á fimmtudagskvöld (09.07.2015) í frétt um frönsku hjólreiðakeppnina Tour de France. Það heitir dagleið, ekki dagsleið. Fréttamaðurinn mætti einnig huga að réttum framburði á heiti frægrar borgar, Le Havre, í Frakklandi.

 

FRÓÐLEG SKILTI

Skilti,sem Faxaflóahafnir hafa látið setja upp á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn eru um flest til fyrirmyndar. Þar eru taldir upp skipskaðar við Íslandsstrendur og við Ísland og merktir inn á kort. Það skemmir þó svolítið, að textinn hefur verið illa lesinn áður en skiltin voru gerð. Gildir það bæði íslenska og enska textann. Á móðurmálinu er sögnin að reka (á land) stundum rangt notuð. Enska orðið schooner (skonnorta, sem er að minnsta kosti með tvö möstur) er ýmist skrifað scooner eða sconner. Gott væri að lagfæra þetta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>