AÐ FURÐAST
Gamall skólabróðir skrifara, nú búsettur erlendis, sendi þessar línur (13.07.2015): ,,Sá þetta í grein á Stundinni í frétt um uppsagnir starfsmanna Ríkisútvarpsins.
Þeir starfsmenn RÚV sem Stundin hefur rætt við furðast uppsagnirnar og segja að þær hafi komið flatt upp á alla.
Mér finnst ekki að móðurmálið verði ríkara af þessu nýyrði. Hvað finnst þér? (Furða sig á uppsögnum starfsmannanna).” Þakka þér bréfið S.O. Sennilega áhrif frá sögninni að undrast, verða hissa. Reyndar nefnir orðabókin miðmyndina – einhver furðast eitthvað, – þannig að ekki er þetta nýtt af nálinni.
STÆÐISGJÖLD – BREYTT ÁSÝND !!!
Í Fréttablaðinu á mánudag (13.07.2015) var það haft eftir Ögmundi Jónassyni, alþingismanni, að þjónustugjöld (gjöld fyrir bílastæði og fyrir að nota salerni á Þingvöllum) breyti ásýnd Íslands sem ferðamannalands. Ja, hérna. Molaskrifara finnst þetta út í hött. Við greiðum nær hvarvetna fyrir samskonar þjónustu erlendis. Hvað er að því að greiða fyrir veitta þjónustu og stuðla þannig að uppbyggingu og betri umgengni? Við borgum fyrir bílastæði á Laugaveginum og miklu, miklu víðar. Nýbúið er að stórhækka sektir við stöðubrotum. Hvað er að því að borga fyrir bílastæði við Jökulsárlón, Gullfoss, Geysi eða þjónustumiðstöðina á Þingvöllum? Ekkert. Nákvæmlega ekkert. Ætti líka að koma í veg fyrir að menn böðlist á bílum út um móa og grónar grundir. Gjaldtaka breytir í engu ásýnd Íslands sem ferðamannalands. Útlendingar eru vanir að greiða fyrir veitta þjónustu. Það á að vera hin almenna regla í ferðaþjónustu, – samanber; þeir borga sem menga.
SÉÐ OG HEYRT-VÆÐING
Molaskrifara finnst fréttastofa Ríkisútvarpsins vera komin dálítið
á Séð og heyrt og Smartland mbl.is bylgjulengdina þegar farið er að hnýta orðunum hinn geðþekki og hin geðþekka við nöfn þekktra einstaklinga. Leik- og söngkonan heimsfræga, Judy Garland, var í hádegisfréttum ( í svona dæmigerðri fréttabarna ekki-frétt) kölluð hin geðþekka leikkona Judy Garland. Þetta er í besta falli kjánagangur. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Judy Garland var gæsileg kona og mikill listamaður. Hún þarf ekkert svona viðhengi.
ENN UM ÁNNA
Nú er talsvert um veiðifréttir í fjölmiðlum. Þá verður ýmsum hált á gljánni og tala um ánna, þegar ætti að tala um ána. Þetta hefur áður verið nefnt í Molum. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Af fréttavefnum visir.is (12.07.2015): ,, Veiðin var erfið framan af sumri vegna mikillar snjóbráðar sem litaði ánna og þar með dró úr veiði.” Og aftur: ,, Ásta Dís Óladóttir og eiginmaður hennar, Jakob Bjarnason, áttu góðann dag við ánna í dag …”. Um að gera að spara ekki n-in. Sjá: http://www.visir.is/eystri-ranga-er-ad-hrokkva-i-gang/article/2015150719814
Veiðifréttir í Fréttablaðinu og á visir.is eru ekki vel skrifaðar.
Enginn yfirlestur. Enginn metnaður til að vanda sig eða rita rétt mál.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar