ÁHÆTTUR
Molavin skrifaði (27.07.2015): „Dómarinn fékk heilahristing við að fá boltann í höfuðið og var ákveðið að taka engar áhættur með hann.“ Vísir 27.07 2015. Hvað næst? Ófærðir á vegum, neyðarástönd á sjúkrahúsum eða veðurblíður á landinu? – Já, von er að spurt sé. Þakka ábendinguna, Molavin.
ENGIN STOÐ FYRIR
,,Engin stoð fyrir gífuryrði Ólafs”, segir í fyrirsögn á mbl.is (25.07.2015) og er þar vitnað til ummæla forstjóra MS. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/25/engin_stod_fyrir_gifuryrdi_olafs_2/
Málkennd Molaskrifara segir honum að þetta sé ekki vel orðað. Kannski er það rangt. MS forstjórinn á við að enginn fótur sé fyrir orðum Ólafs. Þau séu tilhæfulaus.
AUSTAN LOGN
Ekki heyrði skrifari betur en í veðurlýsingu Veðurstofunnar á sunnudagsmorgni (26.07.2015) væri sagt að á Akureyrarflugvelli væri austanlogn. Það var sem sagt austanátt í logninu. Greinilega öndvegisveður.
HRESSANDI JÓN BALDVIN
Það var hinsvegar ekkert logn og alls ekki austanlogn, í Jóni Baldvini hjá Sigurjóni M. Egilssyni Á Sprengisandi á Bylgjunni þennan saman morgun. Hressandi samtal og fróðleg upprifjun sögunnar , ekki síst um inngönguna í EFTA og aðildina að EES. Tilhlökkunarefni að fá framhald á sunnudaginn kemur.
AÐ LEIÐA MÓT
Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (25.07.2015): ,, … á eftir Þórði sem leiðir mótið”. Þetta er að vísu nokkuð algengt orðalag hjá íþróttafréttamönnum, en ekki þykir Molaskrifara það til fyrirmyndar. Þórður hafði sem sé forystu á mótinu. Umsjónarmaður íþróttafrétta Ríkissjónvarpsins þetta kvöld gerði vel í því að kynna sér og tileinka sér að beygja orðið dóttir rétt.
ÓMAR MINNINGANNA
Þáttur Ómars Ragnarssonar Ómar minninganna, sem endurtekinn var á Rás eitt á laugardagskvöldið (25.07.2015) var firna góður. Mikil auðlind og ómetanleg,sem hann Ómar er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar