«

»

Molar um málfar og miðla 1785

STARFSKRAFTUR

Fyrir nokkrum árum var oft auglýst eftir starfskröftum, ekki starfsfólki, starfsmönnum. Heldur hefur dregið úr þessu, sem betur fer. Málfarsfemínistar voru andvígir orðinu starfsmaður, töldu að það næði ekki til kvenna, sem er út í hött ,því auðvitað eru konur menn.

Í frétt í Morgunblaðinu (31.08.2015) um Norðurlandaráðsþing í Hörpu 27. til 29. október segir: ,,Á meðan þing Norðurlandaráðs stendur yfir verður starfskraftur Alþingis að störfum í Hörpu”. Betra hefði verið, til dæmis: ,,Starfsfólk Alþingis verður við störf í Hörpu þingdagana.”Varla verður þó allt starfsliðið þar. Ýmis starfsemi mun ganga sinn vanagang á skrifstofum þings og þingnefnda, þótt þorri starfsfólks verði í Hörpu.

 

GERAST FYRIR OKKUR

Af mbl.is (31.08.2015):

,, „Það sem er að ger­ast í Alaska er að ger­ast fyr­ir okk­ur,“ sagði Obama við frétta­menn áður en hann lagði af stað í ferðalagið til Alaska. Hann bætti við að svo lengi sem hann gegndi embætti for­seta þá myndu Banda­rík­in leiða umræðuna og aðgerðir varðandi loft­lags­breyt­ing­ar. Hann vísaði þar til hækk­un hita sjáv­ar, bráðnun jökla og að meðal­hit­inn á jörðinni fari hækk­andi.” Ekki vönduð þýðing á erlendri frétt. Gerast fyrir okkur? Hálfgert barnamál.

Það sem er að gerast í Alaska er að gerast hjá okkur ….. Hann vísaði þar til hækkunar hitastigs sjávar, bráðnunar jökla og þess að meðalhiti á jörðinni fari hækkandi. Ekki mjög góður texti.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/obama_raedir_loftlagsmal_i_alaska/

 

AÐ OG AF

Enn um að og af. Mbl.is (31,.08.2015): Bróðir tveggja ind­verskra systra hljópst á brott með giftri konu og ákváðu öld­ung­ar þorps­ins að þeim yrði nauðgað hópi karl­manna, að það væri hæfi­leg refs­ing. Kannski bara innsláttarvilla. Hefði þó átt að leiðrétta í yfirlestri.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/tveimur_systrum_verdi_naudgad/

TVEIR SEM BRÁ

Af visir.is (31.08.2015): ,,Tveir landamæraverðir við El Tarajal, sem liggur við Marokkó og spænska héraðið Ceuta, brá mjög þegar þeir lyftu upp vélarhlíf á bifreið sem þeir hugðust rannsaka.” Fallafælni. Tveir landamæraverðir brá ekki. Tveimur landamæravörðum … brá mjög. Enginn yfirlestur.

http://www.visir.is/faldi-sig-i-velarrymi-bifreidar/article/2015150839834

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>