TIL ATHUGUNAR
Í þessari stuttu málsgrein af mbl. is (24.10.2015) eru tvær villur. ,,Rauði hálfmáninn í Líbýu greinir frá því að líkum 40 flóttamanna hafi rekið á land þar í landi í dag. Mohames al-Masrati, talsmaður Rauða hálfmánans í Líbýu, segir að 27 líkanna hafi fundist í bænum Zliten, austan við höfuðborgina Trípólí. Hin 13 hafa rekið á land við Trípóló og Khoms.” Lík 40 flótta manna rak á land …Hin 13 rak á land…. Eftirlitslaus fréttabörn á helgarvakt?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/24/40_likum_skoladi_a_land_i_libyu/
Fyrirsögn fréttarinnar er hinsvegar hárrétt: 40 líkum skolaði á land í Líbýu. Ritstjórn mbl.is ætti að huga nánar að þessu.
GAMLA ÚTSVARIÐ
Á föstudagskvöld (23.10.2015) horfði Molaskrifari á Ríkissjónvarpið frá fréttum og fram til klukkan 2200. Þar var einöngu innlent efni á dagskrá, – og eiginlega stóð gamla Útsvarið upp úr. Stóð fyrir sínu.
Þáttur Gísla Marteins er sjálfsagt ,,á jákvæðum og uppbyggilegum nótum” eins og lögð er áhersla á í kynningu á þættinum. Molaskrifara finnst þátturinn samt ekki ná flugi, – hámark frumleikans þar, var langt, langt viðtal til að kynna nýja bók Jóns Gnarrs, Útlagann. Tveimur dögum fyrr var í Kiljunni í Ríkissjónvarpinu tíu mínútna langt viðtal Egils Helgasonar við Jón Gnarr. einmitt til að kynna þessa sömu bók. Gott og vel. Kiljan er bókmenntaþáttur. Sjálfsögð kynning. En svo annað viðtal við sama mann um sama efni tveimur dögum síðar orkar tvímælis, og meira en það. Kannski hefur Gísli Marteinn bar alls ekki horft á Kiljuna? Raunar má bæta því við að bókar Jóns Gnarrs var rækilega getið í þætti Gísla Marteins viku áður (16.10.2015).
Er þetta eins og það á að vera? Nei. Vinargreiði? Nei, slíkt á ekki að tíðkast í þessari stofnun.
Svo var á dagskrá hinn gjörsamlega óskiljanlegi þáttur Frímínútur. Molaskrifari hefur enn ekki hitt nokkurn mann, sem skilur hvað þar er verið að fara. Sama gildir raunar um svokallaðar Hraðfréttir. Miklu fé er þar á glæ kastað hjá þessari síblönku þjóðarstofnun.
ENN EINU SINNI
Á Bylgjunni á sunnudagsmorgni (25.10.2015) voru fluttir bútar úr morgunþættinum Í bítið í liðinni viku. Þar var SDG spurður um tolla á matvælum; hversvegna þyrfti að leggja 30% toll á sætar kartöflur,sem ekki væru einu sinni ræktaðar á Íslandi. Ráðherrann romsaði um afrek ríkisstjórnarinnar við afnám tolla og vörugjalda, en bar ekki við að svara spurningunni. Reyndi það ekki. Spyrjanda virtist standa á sama. Hann reyndi ekki einu sinni að fá ráðherra til að svara eða fylgja spurningunni eftir. Gerist of oft. Ekki góð vinnubrögð.
RANGT FALL
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.10.2015) var fjallað um hatursmorðin í skólanum í Trollhättan í Svíþjóð. Þar var sagt: ,,Norðmenn eru líka minnugir hryðjuverkum Anders Behrings Breiviks ….” Hér hefði átt að segja:,, Norðmenn eru líka minnugir hryðjuverka …” Að vera minnugur einhvers, er að muna eitthvað skýrt og geinilega. Norðmenn muna vel hryðjuverk …
FYRIR HÖND
,,Fyrir hönd mín ….” sagði fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins við landsfulltrúa á laugardag (24.10.2015). Þetta var flutt í fréttum Stöðvar tvö. Ja, hérna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar