«

»

Molar um málfar og miðla 1850

 

ÁRTÍÐ – AFMÆLI

Þórhallur Jósepsson skrifaði Molum (17.12.2015): ,,Sæll Eiður.
Um daginn hlustaði ég á Víðsjá í Útvarpinu. Rætt var við Ara Trausta Guðmundsson um föður hans, Guðmund frá Miðdal. Tilefnið var sagt vera „120 ára ártíð“ Guðmundar.
Svo virðist sem fólk þekki varla eða alls ekki lengur þetta fyrirbæri ártíð. Í þessu viðtali hefur líklega átt að minnast 120 ára afmælis Guðmundar. Sama villa var á ferð í sumar í öðrum ágætum útvarpsþætti, Hátalaranum, þegar frá því var sagt að unnendur frægrar djasssöngkonu, Billie Halliday ef ég man rétt, væru á þessu ári að minnast 115 ára ártíðar hennar.
Í barnaskóla var mér kennt að afmæli manna skuli telja frá fæðingardegi, en ártíð væri talin frá dánardegi og ævinlega talin með raðtölu. Þannig skyldi segja hundraðasta ártíð, þegar 100 ár eru liðin frá dánardægri. Í Víðsjá hefði því átt að minnast 120 ára afmælis Guðmundar frá Miðdal, því ekki held ég að 120 ár séu liðin frá andláti hans. Að skaðlausu mætti málfarsráðunautur Útvarpsins rifja þetta upp með dagskrárgerðarfólki.” Þakka bréfið, Þórhallur. Það er sífellt verið að rugla þessu saman, jafn einfalt og þetta nú. Já, málfarsráðunautur ætti að fara yfir þetta með sínu fólki.

 

SAMMÆLI – SANNMÆLI

Af mbl.is (16.12.2015): ,, Hann sagði að stjórn­ar­andstaðan vildi gefa meiri­hluta þings­ins tæki­færi til að skipta um skoðun í af­stöðu sinni varðandi það hvort aldraðir og ör­orku­líf­eyr­isþegar ættu að njóta sam­mæl­is á við aðra í sam­fé­lag­inu”. Þetta er merkingarleysa. Hér hefur eitthvað skolast til. Sammæli er samkomulag. Hér hefði betur staðið eða verið sagt: ,, … hvort aldraðir og ör­orku­líf­eyr­isþegar ættu að njóta sannmæl­is í sam­fé­lag­inu”. Að njóta sannmælis, er að njóta réttlætis í umræðunni, sannmæli er sannleikur.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/16/menn_eru_i_algjorri_sjalfheldu/

 

 

 

 

VETTVANGUR

Vettvangur er ofnotað orð í fréttum. Í níufréttum Bylgjunnar (15.12.2015) var sagt: Mikil hálka var á vettvangi. Vegurinn var mjög háll, glerháll, flugháll.

 

DÁLDIÐ KÚL

Við vitum öll, að enskan er dáldið (dálítið) flott, dáldið kúl. Þetta var sagt í Málskotinu, þriðjudagsþætti málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins í morgunþættinum á Rás tvö (15.12.2015). Viðstaddir hlógu. Það var og. Ríkisútvarpið okkar, verndari tungunnar. Eða hvað?

 

VANDA SIG

Í Spegli Ríkisútvarpsins (16.12.2015) voru nokkrar fjólur. Þar var meðal annars talað um áhuga eftir sjálfboðaliðum. Verið var að tala um áhuga á því að fá sjálfboðaliða til starfa. Þá var sagt að verkaslýðsfélögin yrðu tekin á skólabekk.  Átt var við að elfa þyrfti fræðslu hjá verkalýðsfélögunum. Vanda sig.

 

ENN EINU SINNI

Af mbl.is (16.12.2015) um olíuleka í íþjóðgarðinum á Þingvöllum: ,,Olía lak úr jeppa ferðaþjón­ustuaðila við Flosa­gjá í þjóðgarðinum á Þing­völl­um í gær með þeim af­leiðing­um að olía rann út í gjánna”. Olían rann út í gjána, ekki gjánna. Orðmyndin gjánna er eignarfall fleirtölu með greini af kvenkynsnafnorðinu gjá. Algengt er líka nú orðið að sjá skrifað brúnna, í stað brúna. Þetta er ekki innsláttarvilla. Síðar í fréttinni segir nefnilega: ,, Hann seg­ir að erfitt sé að gera sér grein fyr­ir hversu mikið magn af olíu hafi lekið á planið og í gjánna þar sem olí­an smit­ar mikið og er afar sýni­leg.”

Ferðaþjónustuaðili? Er það ekki ferðaþjónustufyrirtæki? Aðili er ofnotað orð. Eins og orðið vettvangur, sem vikið er að hér að ofan.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/16/oliuleki_i_thjodgardinum/ Fréttin er illa skrifuð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>