«

»

Molar um málfar og miðla 1864

 

METNAÐARLEYSI

Á sunnudag (10.01.2016) gluggaði skrifari aðeins í fréttavef dv.is. Þar er ekki metnaðinum fyrir að fara.

Tvö dæmi: Lovísa var ásamt sjö mánaða syni sínum nýbúin að versla inn í búðinni. Ótrúlega margir fréttaskrifarar ráða ekki við  sagnirnar að kaupa og að versla. Konan var nýbúin að versla í búðinni. Konan var nýbúin að kaupa inn í búðinni. http://www.dv.is/frettir/2016/1/9/ungur-madur-kom-lovisu-til-bjargar-fyrir-utan-kronuna/

Í dag er ætlunin að leita árbakkana frá Selfossi að ósnum, sigla ánna og ósinn eins og hægt er, keyra fjörur …. hér hefði átt að standa , …. sigla ána , eða sigla eftir ánni. http://www.dv.is/frettir/2016/1/10/leit-hefst-hefst-aftur-vid-olfusa-ad-manni-sem-talid-er-ad-hafa-fallid-i-ana/

Hér er svo þriðja dæmið frá mánudegi (11.01.2016): ,,Erlendir ferðamenn sem festu bílaleigubíl fjarri byggðu bóli um hánótt var neitað um aðstoð frá lögreglu og einkaaðila sem sérhæfir sig í að draga bíla úr festu.” Erlendum ferðamönnum var neitað um aðstoð. Erlendir ferðamenn var ekki neitað um aðstoð.

http://www.dv.is/frettir/2016/1/11/ferdamonnum-i-vanda-neitad-um-adstod-logreglu-og-einkaadila/

Hvar er metnaðurinn til að vanda sig, til að gera vel?

 

 

SJÁVARÚTVEGUR

Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (09.01.2016) var talað um tap sjávarútvegar. Tap sjávarútvegs(ins) hefði þetta fremur átt að vera, eftir máltilfinningu Molaskrifara. Vefur Árnastofnunar er hins vegar með báðar eignarfallsmyndirnar sjávarútvegs og sjávarútvegar . Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=sj%C3%A1var%C3%BAtvegur

 

VÍGI

Vígi (hvk.) er varnarstaður eða víggirtur staður. Í tvígang nú nýlega hefur skrifari heyrt orðmyndina vígum í fréttum Ríkisútvarpsins, eitt af höfuðvígum . Ætti að vera eitt af höfuðvígjum (þgf. flt). http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=4046

Vígum er þgf. flt. af orðinu víg, sem er dráp, eða bardagi (fornt). http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=v%C3%ADg

 

DAVID BOWIE

Mikil umfjöllun var í öllum fjölmiðlum um David Bowie, þegar hann lést í byrjun vikunnar. Hann var vissulega áhrifamikill listamaður, sennilega einn þeirra áhrifamestu undanfarna áratugi. Ekki þekkti Molaskrifari tónlist hans sérstaklega vel, en sá hann fyrir langa löngu á leiksviði í hlutverki Fílamannsins, The Elephant Man. Það var mögnuð sýning og ógleymanleg.

Nokkuð var mismunandi, til dæmis í menningarumfjöllun Kastljóss, (11.01.2016), hvernig menn báru nafnið hans fram. Um framburð nafns söngvarans segir á vef BBC: ,, Although his name is often pronounced as BOW-ee (-ow as in now) the pronunciation that he uses and we recommend is BOH-ee (-oh as in no).”

http://www.bbc.co.uk/blogs/magazinemonitor/2007/01/how_to_say_bowie.shtml

Bergsteinn Sigurðsson, menningarritstjóri Kastljóss, var með þetta á hreinu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>