«

»

Molar um málfar og miðla 1865

 

AÐGENGI

Í Morgunblaðinu (12.01.2016) var frétt um að í höfuðborginni væri ekkert almenningssalerni með aðstöðu fyrir hreyfihamlaða, sem opið væri allan sólarhringinn. Í fréttinni er haft eftir upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg: ,,Bjarni segir að þörf sé á pólitískri ákvarðanatöku (svo!) um það hvort salernum með aðgengi fyrir hreyfihamlaða verði komið upp í borginni”. Molaskrifari hélt í einfeldni sinni að hér væri um svo sjálfsagt jafnréttismál að ræða, að ekki þyrfti sérstaka pólitíska ákvörðun í málinu. ,,.. þörf á pólitískri ákvarðanatöku” er  dæmi um stofnanamál.

 

BRODDAR

Oft er ágætisefni að finna á sjónvarpsstöðvunum N4 og Hringbraut. Á dögunum horfði skrifari á fróðlegan þátt á sjónvarpsstöðinni  N4 þar sem fjallað var um mannbrodda, – bráðnauðsynleg öryggistæki eins og göngufærið hefur víða verið að undanförnu.

Í þættinum var rætt við skósmið á Akureyri, unga konu, Hólmfríði Maríu Högnadóttur. Hún ræddi af þekkingu og reynslu um ýmsar gerðir mannbrodda, en það sem vakti mesta athygli Molaskrifara var falleg framsögn og vandað málfar þessarar ungu konu, sem rætt var við. Oft er það svo að maður tekur sérstaklega eftir að viðmælendur eru miklu betur máli farnir en spyrlarnir, – ekkert var þó út á spyril að setja í þessu tilviki. Þessi þáttur var hins vegar prýðilegt dæmi um það hvernig  gera má gott, og fróðlegt sjónvarpsefni án þess að kosta miklu til.

 

ENN OG AFTUR …

Af dv.is (12.01.2016): ,,Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Morgunblaðinu, þykir lítið koma til sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð ef marka má viðhorfspistil sem birtur er í blaðinu í dag”. Hér ætti að standa: Benedikt Bóasi Hinrikssyni , blaðamanni á Morgunblaðinu, þykir lítið koma til …  Almenn vanþekking á meginreglum íslenskrar tungu virðist nokkuð útbreidd á ritstjórn þessa fjölmiðils. http://www.dv.is/menning/2016/1/12/bladamadur-morgunbladsins-oanaegdur-med-ofaerd-handritshofundar-med-allt-nidur-um-sig/

 

 

FORRÆÐI

Nafnorðið forræði er eingöngu til í eintölu. Þessvegna er þetta rangt sem lesa má á dv.is (12.01.2016): ,,Þá bætir hún við að lögreglan hér á landi hafi engin forræði yfir málinu.”  Hér hefði mátt segja til dæmis , – hefði ekki forræði yfir málinu, – réði engu um framgang málsins. – Í sömu frétt er haft eftir lögreglumanni, -,, við höfum engar bjargir” . Átt er við að lögreglan sé ráðþrota, geti ekki leyst málið eða þokað því áfram. http://www.dv.is/frettir/2016/1/12/mannshvarf-islendings-i-paragvae-fadir-gudmundar-heyrdi-i-honum-skype/

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>