«

»

Molar um málfar og miðla 1866

SÓLA – SÓLNA

Molaskrifari hnaut um þessa fyrirsögn á mbl.is (13.01.2016):

Vegur á við 500 biljónir sóla. Í fréttinni segir síðan: ,,Gríðarlega massa­mik­il vetr­ar­brautaþyrp­ing í um tíu millj­arða ljós­ára fjar­lægð frá jörðinni veg­ur um það bil eins mikið og 500 bilj­ón­ir (millj­ón millj­ón­ir) sóla.”

Samkvæmt því sem segir á vef Árnastofnanir getur ef. flt. af orðinu sól verið bæði sóla og sólna. Beygingardæmunum fylgja einnig athyglisverðar skýringar. Sjá:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=s%C3%B3l#

Stafsetningarorðabókin, íslensk orðabók og Málfarsbankinn eru hinsvegar á því á skrifa eigi billjón, milljón milljónir, ekki biljón.

 

SÓLARHRINGURINN

Sólarhringurinn lengist óðum í frostviðrinu , segir í fyrirsögn með fallegri mynd á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudag (14.01.2016). Er sólarhringurinn að lengjast? Það hlýtur að vera, því ekki lýgur Moggi, eins og stundum var sagt í gamla daga, þegar kommarnir töluðu um Moggalygi í umfjöllun Moggans um kommúnistaríkin. Moggalygin reyndist svo eftir á að hyggja nakinn og óþægilegur sannleikur.

Hér er greinilega ruglað saman sólarhring og sólargangi.

 

ÞÖRF Á STERKARI STRENG

Glöggur lesandi benti á eftirfarandi í frétt um ótengdan veðurmæli. Fréttin birtist á fréttavef Ríkisútvarpsins (13.01.2016). Þar segir: „Fjallshlíðin er að síga niður og strengurinn er ekki nógu sterkur til að halda henni uppi..…”

Hvernig skyldi sá sem þetta skrifaði hafa séð þennan streng fyrir sér?

http://www.ruv.is/frett/mikilvaegur-vedurmaelir-otengdur-i-17-daga

Yfirlestur hefði þarna komið að góðu gagni.

 

ÁRÁS

Í Spegli Ríkisútvarpsins (13.01.2016) var ítrekað talað um að fremja árás. Molaskrifari viðurkennir að þetta orðalag er honum framandi. Hann hefur vanist því að talað sé um að gera árás.

 

 

BRESTIR HJÁ DV.IS

Af dv.is (14.01.2016):,,Hafa hlotið heilsubresti.” Í fréttinni er fjallað um fólk sem líður og hefur beðið tjón á heilsu sinni vegna linnulausra kannabisreykinga nágranna. Furðulegt að nokkrum blaðamanni skuli til hugar koma að orðið heilsubrestur sé til í fleirtölu! Kannski ætti að efna til kennslu í íslenskri málfræði á ritstjórn dv.is?

 

GARÐUR – GARÐURINN

Sveitarfélagið Garður er blómleg byggð á Rosmhvalanesi, – stundum ranglega sagt á Reykjanesi. Þar hefur staðið yfir að undanförnu alþjóðleg listahátíð, Ferskir vindar. Þar var gaman að koma um síðustu helgi og skoða margvísleg verk, þar sem sitt af hverju úr náttúrunni er hugvitsamlega , skemmtilega nýtt. Lofsvert framtak. Lýkur  núna um helgina. Vel þess virði að skreppa í Garðinn.

Í fjölmiðlum , m.a. í Kastljósi, hefur verið sagt frá þessari listahátíð og er þá oftar en ekki sagði að hún sé í Garði. Molaskrifari hefur vanist því frá barnæsku að talað sé um Garðinn, – með ákveðnum greini. Spurður um ættir svarar Molaskrifari jafnan að hann sé úr Garðinum og austan úr Rangárvallasýslu úr Holtunum og úr Landsveitinni (af Landinu), einnig með ákveðnum greini.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>