«

»

Molar um málfar og miðla 1867

STYR Í STRAUMSVÍK

Þegar styr stendur  um eitthvað, þá er deilt um eitthvað. Í Spegli Ríkisútvarpsins (15.01.2016) sagði fréttamaður í umfjöllun um vinnudeildur í Straumsvík: ,,Styrinn snýst um kröfu álversins að fyrirtækið verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf í álverinu …” Hér hefði fremur átt að segja: ,,Styrinn stendur um kröfu álversins að fyrirtækinu verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf …” . Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar.

 

VIÐ SAMA HEYGARÐS ….

Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Hann skilur ekki hversvegna þurfti að seinka fréttum í Ríkissjónvarpinu um ellefu mínútur á laugardagskvöld vegna þess að Spánverjar og Þjóðverjar voru að leika handknattleik. Hversvegna var þessi boltaleikur ekki sýnt á íþróttarásinni? Til hvers er hún?

Það var ekki einu sinni hægt að afsaka þetta með því að íslenska landsliðið, eða íslenskt lið, væri að leika.

Skotið var upp skjáborða þar sem sagði: Fréttir hefjast að leik loknum. Það var ekki rétt. Að leik loknum hófust auglýsingar. Síðan hófust fréttir. Þarf útvarpsstjóra? Þarf dagskrárstjóra? Getur íþróttadeildin ekki bara séð um þetta? Hún ræður dagskránni hvort sem er.

 

BRENNIVÍN Í BÓNUS

Úr skrifum á visir.is (17.01.2016) um samræður Kára Stefánssonar og flutningsmanns brennivíns- í-Bónus-frumvarpsins: ,,Sagði hann það ekki vera reynsluna á Íslandi þar sem einkaaðilinn hefði síðastliðin ár fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent síðastliðin ár en engu að síður væri neyslan minni en árið 2007.
„Og þeir sömu sem eru að berjast gegn frumvarpinu hafa ekki komið með sömu staðreyndir til að nota gegn frumvarpinu til að sýna að einkaaðilinn hefur fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent. …”

Molaskrifari verður að játa að hann nær þessu ekki alveg.

http://www.visir.is/atok-a-sprengisandi-kari-stefansson-sagdi-kollega-vilhjalms-hafa-haldid-thvi-fram-ad-hagar-hefdu-samid-afengisfrumvarpid/article/2016160119036

 

 

LENGRI AUGNABLIK

Molaskrifari veit með vissu að mjög margir, ekki síst eldri borgarar, sem muna árdaga sjónvarps á Íslandi hafa gaman af þáttunum, sem sýndir eru á föstudagskvöldum í tilefni hálfrar aldar afmælis Sjónvarpsins. Augnablik – úr 50 ára sögu Sjónvarps, heita þeir.

Þessir þættir mættu alveg að skaðlausu vera helmingi lengri. Þeir eru vel gerðir og skemmtilega fram settir.  Gamlir skemmtiþættir , – og auglýsingar – standa vel fyrir sínu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>