«

»

Molar um málfar og miðla 1868

UM HÁLSBINDI

Það var ekki mikið að gerast í þjóðlífinu á mánudagsmorgni (18.01.2016) þegar löng umræða fór fram í morgunþætti Rásar tvö um hálsbindi, sem maður hafi sést með í sjónvarpi daginn áður. Svokallaður sérfræðingur var kallaður til. Málið rætt í þaula. Kannski fannst einhverjum þetta skemmtileg umræða. Seinna kom í ljós að bindið hafði verið sótt vestur  til Ameríku og kostað tvö eða þrjú þúsund dollara. Kannski var þetta allt grín.

Maðurinn með hálsbindið náði tilgangi sínum. Vakti athygli á sér og hálstauinu.

 

ENGINN YFIRLESTUR?

Af dv.is (18.01.2016): ,,Hópuppsagnir blasa við ef skólastjórinn snýr aftur – Segja að engin laus sé í sjónmáli vegna ágreinings – Bekkjafulltrúaráð lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni”. Engin lausn í sjónmáli hefði þetta auðvitað átt að vera.

Og, – í sama miðli sama dag: ,, Tveir sextán ára unglingar léstur í snjóflóðinu auk skíðamanns sem var nærri.” Létust í snjóflóðinu átti þetta að vera.

Ekki mikill metnaður til að vanda sig, – gera vel.

 

AÐ FARAST ÚR HUNGURSNEYÐ

Rósa S. Jónsdóttir skrifaði Molum (18.01.2016). Hún vísar í frétt á mbl.is þann sama dag og segir: ,,Að farast úr hungursneyð er ekki alveg í samræmi við mína málvitund.”. Þetta er heldur ekki í samræmi við málkennd Molaskrifara. Þakka ábendinguna.

Í fréttinni segir: ,, Fimm manns hafa far­ist úr hung­urs­neyð und­an­farna viku í bæn­um Madaya í Sýr­landi þrátt fyr­ir að tvær neyðarsend­ing­ar með mat hafi komið með bíla­lest­um til bæj­ar­ins”. Fólkið dó úr hungri – svalt í hel.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/18/fimm_forust_ur_hungursneyd/

 

CARLSBERG Í KASTLJÓSI

Löng bjórauglýsing, Carlsberg, var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (18.01.2016). Hvaða erindi átti þetta einstaklega lítið merkilega viðtal við þrjá karla í þátt, sem kallaður er ,,beittur fréttaskýringaþáttur”? Erfitt að sjá það. Skrifari sá það ekki.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Kristján. Það er ekki bjart framundan hjá þeim sem unna einhverju öðru en boltaleikjum og júrópoppi. Stundum finnst mér eins og Ríkissjónvarpinu hafi tekist að æra þessa þjóð, – kannski var hún ær fyrir. Ekki þó svona slæm.

  2. Kristján skrifar:

    Manninum með gullbindið finnst gaman að vera í sviðsljósinu. Faðir hans, Geir Hallsteinsson, naut sín best á sjálfum handboltavellinum, enda töframaður með boltann.

    Fyrir leik Íslands gegn Hvíta-Rússlandi, sagði þjálfari Íslands í viðtali: „Þeir spila fjölbreytilega varnarlega“ Semsagt, þeir spila fjölbreyttan varnarleik.

    Eins og alltaf þegar Ísland tekur þátt í stórmóti í handbolta, umturnast dagskráin hjá RÚV. Næstu vikur og mánuði verður svo Eurovision æsingurinn allsráðandi. Í sumar verður EM í knattspyrnu og þá verður lítið annað á dagskrá en knattspyrna, umræða um knattspyrnu og enn meiri umræða um knattspyrnu.

    Inni á milli verða svo langloku dagskrárkynningar RÚV um knattspyrnu og umræðuþætti um knattspyrnu. Ég mun horfa á alla leiki Íslands með miklum áhuga en hef minni áhuga á endalausu blaðri í hljóðstofu í Efstaleiti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>