ALGENG MISTÖK
Molavin skrifaði (09.02.2016): ,,Bankastjóri stærsta banka Svíþjóðar, Swedbank, Michael Wolf, hefur verið sagt upp störfum…“ segir í viðskiptamogga 9.2.2016. Í þessari setningu er bankastjórinn frumlag. Honum hefur verið sagt upp. Þess vegna ætti að standa „Bankastjóra…hefur verið sagt upp.“ Mistök af þessu tagi eru svo algeng í fjölmiðlum að engu er líkara en ritstjórnir og fréttastofur hafi fyllzt af fólki, sem kann ekki meðferð móðurmálsins eða ræður ekki við samsettar setningar eða aukasetningar. Skýr hugsun og kunnátta í meðferð móðurmálsins ætti að vera forsenda fyrir starfi við fréttaskrif. Skyldu menn ekki vera prófaðir áður en þeir eru ráðnir til starfa?”
Molavin bætti við:,, Í málfarsþætti Moggans í dag er einmitt tekið á þessu, sem ég nefndi og er reyndar líka umfjöllunarefni í þínum þætti í dag. En á þessu má samt hamra.
Þessir litlu málfarsþættir Moggans eru afar góðir og ættu að vera skyldulesning allra fréttamanna”. – Þakka bréfið, Molavin. Satt og rétt. Þáttur dagsins í Mogga (bls.29) er þess virði að birta hann í heild: ,,Þær sem ekki opnast á að henda” úr uppskrift að kræklingarétti Þetta er gagnort dæmi um algenga hrösun. Þær , skeljarnar, opnast eða ekki – en þeim á eða á ekki að henda. Rétt er því: Þeim sem ekki opnast á að henda. Ritarinn segði ábyggilega ekki ,, Það á að henda þær sem ekki opnast”. Vonandi hafa þeir sem mest þurfa á að halda lesið þetta.
Hér er svo enn eitt dæmi um svipað. Fréttablaðið (10.02.2016): ,,Nefndarmönnum í þingmannanefnd ESB og Íslands eru ekki sammála túlkun Birgitta Jónsdóttir þingmanns Pírata á orðum þingmanna nefndarinnar …..”. Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Nefndarmenn … eru ekki sammála ….” http://www.visir.is/oftulkun-a-diplomatiskum-ordum/article/2016160219984
VINNSLUSTOPP
Molavin spyr í öðru bréfi: „…frá í því vinnslustopp hófst í nóvember síðastliðnum…“ sagði í kvöldfréttum útvarps (RÚV 11.02.2016). Hófst stoppið eða var vinnsla stöðvuð?
Ógerlegt er að ráða af þessu við hvað er átt. Hefði auðvitað átt vera skýrar orðað. Þakka ábendinguna, Molavin.
SÁR ENNI
,En Frammarar sitja eftir með sár enni,” var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (09.02.2016). Nú má vera að þetta sé ekki beinlínis rangt, en Molaskrifari er sammála málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins um að ekki megi fara rangt með orðtök ,sem eru föst í málinu. Samkvæmt máltilfinningu skrifara hefði átt að segja, að Frammarar sætu eftir með sárt enni(ð).
MÁLSPJÖLL Í BOÐI ÍSLANDSBANKA
Rafn skrifaði Molum (10,02.2016),,Sæll Eiður
Á forsíðu Íslandsbankavefsins er að finna auglýsingakassa, þar sem auglýsingar eru sýndar skamma stund áður en velt er yfir á næstu auglýsingu. Textinn hér fyrir neðan er ein þessara auglýsinga, en í mínum huga kallar textinn ekki á skýringar heldur brottfellingu.
Kveðja Rafn” Algjörlega sammála, Rafn. Það er engu líkara en mörg stærstu fyrirtæki landsins hafi sameinast í samstilltu átaki um að gera atlögu að móðurmálinu, með því að nota í síauknum mæli slettur og ambögur. Við þessu þarf að bregðast.
Þetta er auglýsingakassinn, sem hér um ræðir:
Kass er nýtt app sem allir geta notað til að borga, rukka eða splitta kostnaðinum þegar vinahópurinn eða fjölskyldan tekur sig til og gerir eitthvað skemmtilegt.” Kass er ekki mál, heldur málleysa. Er ekki að splitta það sama og að skipta eða deila kostnaði Hversvegna er slett á okkur ensku?
UM % OG HÆKKANIR
Annað bréf frá Rafni (09.02.2016): ,,Sæll Eiður
Meðfylgjandi er framan af fyrstu frétt á vef Morgunblaðsins nú á mánudagsmorgni. Í fyrirsögn segir að bílastæðagjöld við Leifsstöð tvöfaldist, sem á við um hluta gjaldanna, þ.e. fyrstu klukkustund á skammtímastæðum og þriðju viku á langtímastæðum. Í meginmáli segir síðan, að gjöldin þrefaldist, hækki um 217%, þrátt fyrir að listi yfir breytingar sýni, að hækkun er mest 117%, sem vissulega setur viðkomandi gjöld í 217% af fyrra gjaldi.
Innlent | mbl | 8.2.2016 | 8:21
Bílastæðagjöld tvöfaldast við Leifsstöð
Gjaldskrá bílastæða við flugvöllinn mun hækka allt að tvöfalt 1. apríl.
Bílastæðagjöld á Keflavíkurflugvelli munu hækka um 30 til 217% með breytingu sem tekur gildi 1. apríl næstkomandi. Mesta breytingin verður á verði fyrir skammtímastæði, en þau hækka úr 230 krónum fyrir fyrstu klukkustundina upp í 500 krónur. Langtímastæði hækka einnig umtalsvert. Í frétt á vef Isavia kemur fram að hækkunin sé vegna framkvæmda við fjölgun stæða, en á annatímum sé nýting stæða allt að 96%.
Isavia segir að vegna mikillar fjölgunar farþega um völlinn hafi ásókn í bílastæði aukist mikið. Vegna þess sé nauðsynlegt að fara í framkvæmdir og fjölga stæðum, en í dag eru 2.100 við völlinn. Því sé farin sú leið að hækka gjöldin til að geta staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig verði tekin upp gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina. Breytingarnar eru eftirfarandi:
Skammtímastæði á svæðum P1 og P2:
Verð nú: 230 krónur á klukkustund
Fyrstu 15 mínútur verða gjaldfrjálsar
Fyrsta klukkustund verður 500 krónur og hækkar um 117%.
Hver klukkustund eftir það 750 krónur.
– Þakka bréfið, Rafn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar