«

»

Molar um málfar og miðla 1890

Á GULLFOSSI

,,Það hljómar kannski ótrúlega ,en þetta er rólegur dagur á Gullfossi”,  sagði fréttamaður í Ríkissjónvarpi (14.02.2016). Hann átti við, að ekki hefði verið mikið um ferðamenn austur við Gullfoss þann daginn. Algengt er að heyra talað um að fara á Gullfoss og Geysi. Eðlilegra væri að tala um að fara austur að Gullfossi og Geysi. Molaskrifari þekkti öndvegismanninn, Kristján Aðalsteinsson, sem lengi var skipstjóri á Gullfossi, flaggskipi Eimskipafélagsins, sem sigldi aðallega milli Íslands, Skotlands og Danmerkur.

Skemmtilegt mismæli heyrðist seinna í þessari frétt, þegar rætt var við leiðsögumann, ágætan. Hann sagðist hafa verið við Gullfoss með ferðamenn,sem hefðu dottið og rófubrotnað. Rófubeinsbrotnað var það víst!

 

KÍKIRINN

Í tíufréttum Ríkisútvarps (16.02.2016) var sagt frá öflugum stjörnukíki,sem koma á upp í Kína. Flytja þarf fólk burt úr næsta nágrenni við kíkinn , ,, … til að rýma fyrir kíkirnum.“, eins og fréttamaður sagði skýrt og greinilega.  Það var og. Þetta var einu sinni kennt í barnaskólum,sem nú heita grunnskólar. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=k%C3%ADkir

 

AÐ SKIPTA UM HENDUR

Nokkuð oft hefur verið minnst á þetta orðalag hér í Molum , sem sumum hættir til að nota, þegar eigendaskipti verða á fasteign eða lausafé. Á bls. 4 í bílablaði Morgunblaðsins (16.02.2016) segir í myndatexta: ,,Glæsileg Plymouth Heni Cuda að skipta um hendur, en þessi bíll …”. Hvernig sem leitað er á myndinni sjást engar hendur. Hvað þá að verið sé að skipta um hendur. Nýr eigandi hefur að líkindum verið að taka við bílnum.

 

MÖRGÆSIR DEYJA

Í frétt á mbl.is (13.02.2016) sagði: ,, Um það bil 150 þúsund mörgæs­ir á Suður­skautsland­inu hafa dáið eft­ir að ís­jaki á stærð við Róm­ar­borg fest­ist nærri byggð þeirra.”. Er sú rótgróna íslenska málvenja að tala um að dýr drepist, en fólk deyi á undanhaldi?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/13/isjaki_veldur_dauda_150_thusund_morgaesa_2/

 

MYNDIR ÚR SAFNI

Það gerist of oft í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, að okkur eru sýndar gamlar fréttamyndir og látið eins og þær séu nýjar. Mest áberandi er þetta í þingfréttum. Fyrir kemur að það bregður fyrir fólki, sem á ekki lengur sæti á þingi, er ekki á lífi, eða ráðherrum eða þingmönnum, sem vitað er að eru ekki á landinu. Slíkum myndum á ævinlega að fylgja skjáborði með áletruninni Myndir úr safni. Á því er misbrestur. Það eru óvönduð vinnubrögð að láta eins og gamlar myndir séu nýjar.

 

JAFNRÉTTI?

Alltaf kynnir sama konuröddin okkur dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þessar kynningar eru teknar upp fyrirfram og því ógerlegt að bregðast við einhverju óvæntu, sem upp gæti komið. Hefur verið nefnt áður í Molum.

En er ekki kominn tími til að fjölga þeim röddum, sem kynna dagskrána? Væri það ekki í anda jafnréttis að fá eins og eina karlmannsrödd til að tala við okkur, kynna dagskrána? Það var reyndar gert hér á árum áður , – í Ríkissjónvarpinu. Í útvarpinu eru bæði konur og karlar þulir og hallast þar ekkert á.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hnaut um þetta líka. K kv esg

  2. Kristján skrifar:

    Eftirfarandi fyrirsagnir eru núna á Visir.is:

    „Sundhöllin lokar í tvo mánuði í sumar“ og „Búllan opnar í Róm“.

    Það er gott að Sundhöllin opnar aftur og vonandi lokar Búllan ekki Róm.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>