«

»

Molar um málfar og miðla 1893

EKKI TÝNDUR

Hinn týndi Noel stjarnan í nýrri auglýsingu Sigló Hótels, sagði í fyrirsögn á visir.is. Maðurinn var alls ekki týndur . Hann villtist eins og víðfrægt er orðið. Í fréttinni er hann reyndar kallaður heimsfrægur villingur. Í íslensku er orðið villingur ekki notað um þann sem hefur villst af réttri leið. Það er notað um þann sem er hömlulaus (einkum um börn og unglinga), það er einnig notað um villimenn, stygga sauðkind eða ótaminn hest, segir íslensk orðabók. Maðurinn sem villtist til Siglufjarðar var ekkert af þessu. Bara venjulegur ferðamaður sem villtist.

http://www.visir.is/hinn-tyndi-noel-stjarnan-i-nyrri-auglysingu-siglo-hotels/article/2016160229867

 

HÚN SEGIST VERA OFBOÐIÐ

Af eyjan is (21.02.2016) ,,Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Útvarps Sögu er öskuill. Segist hún þrátt fyrir mikið langlundargerð vera ofboðið og geta vart orða bundist.” Hér er íslenskukunnáttu þess sem skrifar talsvert áfátt. Málfarslega hefði verið rétt að segja til dæmis: Segir hún, að þrátt fyrir langlundargeð sé henni ofboðið … Þetta eru annars mikið geðprýðiskrif: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/02/21/arnthrudi-ofbodid-og-hjolar-i-sigurd-g-satt-ad-segja-tha-a-madur-ekki-ad-svara-svo-slikum-raeflum/

 

KOMIÐ GOTT

Vitnað er í heimasíðu forsætisráðherrans á eyjan.is (20.02.2016). Þar segir : ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir „löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur,“” Löngu komið gott? Á sennilega við að fyrir löngu sé komið nóg af …. Kannski þarf forsætisráðherra enn einn aðstoðarmann til að lesa yfir það sem hann skrifar á heimasíðu sína? Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/02/20/sigmundur-david-osattur-fullkomin-kaldhaedni-longu-komid-gott-af-storfurdulegum-arasum/

og http://sigmundurdavid.is/fullkomin-kaldhaedni/

 

 

ORÐTÖK

Of oft heyrist og sést rangt farið með orðtök í fréttum. Þannig var í tíu fréttum Ríkisútvarps á mánudagsmorgni (22.02.2016) sagt að orðrómur væri runninn úr rifjum bandaríska sendiráðsins í ….. Fréttin var um framboðsreglur í forsetakosningum í Bólivíu. Rétt hefði verið að segja runninn undan rifjum bandaríska sendiráðsins, ætti upptök sín í bandaríska sendiráðinu , væri tilbúningur bandaríska sendiráðsins. Því miður sjást þess oft merki, að verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki viðunandi. Ambögur eiga ekki að eiga svona greiða leið til okkar, sem hlustum. http://www.ruv.is/frett/morales-faer-ekki-ad-bjoda-sig-fram-a-ny

 

LANDNEMARNIR

Landnemarnir, þáttaröð Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð tvö er greinilega úrvalsefni. Molaskrifari horfði á þátt gærkvöldsins þar til útsendingu var læst. Viðurkennir, að hann treystir sér ekki til kaupa áskrift að 365 sjónvarpinu til þess eins að horfa á þessa þáttaröð. Annað efni á þessari stöð, fyrir utan fréttirnar,  er  ekki á hans áhugasviði. Kristján Már var einnig með áhugaverða frétt í gærkvöldi um nýjung í álbræðslu í Noregi,sem ég man ekki eftir að hafa séð annarsstaðar.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>