«

»

Molar um málfar og miðla 1899

 

BÆJARSKRIFSTOFUR BÆJARINS

Í sex fréttum Ríkisútvarps (27.02.2016) var fjallað um deilur í bæjarstjórn Kópavogs um það hvar skrifstofur bæjarins skyldu vera til húsa. Fréttamaður talaði um bæjarskrifstofur bæjarins. Bæjarfulltrúi ruglaði saman því að kjósa og geiða atvæði um eitthvað. Þessi ruglingur virðist því miður vera orðinn fastur í málinu. Þetta hefur nokkrum sinnum verið nefnt í Molum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160227

Til dæmis í Molum um málfar og miðla 1143 var skrifað: ,,Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. Eins og vikið var að í Molum fyrir helgina. Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingþingforseti, ef um listakosningu er að ræða.” – Í Kópavogi var verið að greiða atkvæði um hvar skrifstofur bæjarins ættu að vera, – hvar þær ættu að vera til húsa.

 

SÉRKENNILEGT VIÐTAL

Í fréttum Stöðvar á mánudagskvöld (29.02.2016) var viðtal við lögfræðing Barnaheilla. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAE005B74-B616-4ED6-B6BC-1D7534EA2C68

Molaskrifara fannst þetta afar sérkennilegt viðtal. Hann skildi það svo að nú væri eiginlega óviðeigandi að tala um að eignast barn. Til dæmis að hjón hefðu eignast barn. Sömuleiðis væri ekki við hæfi að tala um barnið mitt, eða barnið okkar, börnin mín, börnin okkar. Hvert er einhverskonar pólitískur rétttrúnaður að leiða okkur?

Molaskrifara fannst þetta sannast sagna óttalegt rugl.

 

HROÐVIRKNI

Í lögreglufrétt á visir.is (27.02.2016) segir: ,Í austurbænum kom lögreglan að ökuðum manni á mjög tjónuðum bíl, sem hafði ekið á minnst þrjá kyrrstæða bíla .

http://www.visir.is/mikid-um-stuta-a-hofudborgarsvaedinu/article/2016160228958.

Úr annarri lögreglufrétt á visir.is (28.02.2016): Lögreglan þurfti að hafa afskipti af fjöldamörgum tilkynningum um heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þurfti lögreglan að hafa afskipti af tilkynningum? Svo segir í fréttinni. http://www.visir.is/morg-heimilisofbeldismal-a-bordi-logreglunnar-eftir-nottina/article/2016160228888

Hroðvirkni.

 

SLETTURNAR

Sakna þess svolítið að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins skuli ekki oftar í ágætu Málskoti á þriðjudagsmorgnum gera athugasemdir við tíðar enskuslettur þáttastjórnenda í Ríkisútvarpinu. – Kastljósi gærkvöldsins (01.03.2016) talaði ágætur spyrill um tísku, en bætti svo við enska orðinu – trend! Algjör óþarfi. Það var kannski þess vegna sem viðmælandinn tvítók enska orðið trend í svari sínu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>