«

»

Molar um málfar og miðla 1901

SINN OG HANS

Þorsteinn Davíð Stefánsson skrifaði (02.02.2016): ,,Sæll, Eiður. Við lestur Moggans á netinu hnaut ég um einkennilegt orðalag. Þar er sagt að Osama Bin Laden hafi beðið föður sinn að annast eiginkonu hans. Ég hef vanist því að eigi orðið, annaðhvort sinn eða hans, við frumlagið skuli ,,sinn“ notað en eigi það við aðra en frumlagið skuli ,,hans“ notað. Þó gera megi ráð fyrir að átt sé við eiginkonu sonarins endurspeglar orðalagið það ekki. Ertu sammála þessum skilningi mínum? Með bestu kveðjum og þökkum fyrir ötult starf í þágu íslenskunnar, Þorsteinn Davíð.” – Þakka bréfið, Þorsteinn Davíð og hlý orð. Hjartanlega sammála. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/01/29_milljonir_i_erfdaskra_bin_laden/

 

ORKUPOSTULLI?
Á miðvikudagskvöld (02.03.2016) sýndi Ríkissjónvarpið heimildamynd um merkan íslenskan arkitekt,sem lengi hefur búið og starfað í Hollandi. Myndin hét Orkupostullinn Jón. Molaskrifari hefur hvergi tekist að finna orðið postulli, –  þekkir  orðið postuli. Lærisveinn, brautryðjandi, frumherji?  Einnig postullega og postilla. Kannski er hér fáfræði Molaskrifara um að kenna.

 

ENN LOKA KJÖRSTAÐIR

Það er auðvitað dálítið þreytandi að klifa sífellt á sömu ambögunum, en er gert í trausti þess að dropinn holi steininn.

Í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (01.03.2016) var sagt frá forkosningum vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Fréttamaður sagði:,, Kjörstaðir loka upp úr miðnætti …” Kjörstaðir loka ekki. Kjörstöðum verður lokað upp úr miðnætti.

 

AÐ STÍGA Á STOKK

Í auglýsingu frá fyrirtækinu midi.is í Ríkisútvarpinu rétt fyrir fimm fréttir (01.03.2016) var sagt frá skemmtikröftum sem mundu stíga á stokk. Auglýsingin var endurtekin í útvarpinu morguninn eftir. Eins og hér hefur oft verið vikið að þýðir það að stíga á stokk ekki að koma fram og flytja tónlist eða annað efni. Það er notað um að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins haldi fund með starfsfólki auglýsingastofu og skýri þetta út. Þetta er ekki mjög flókið. Auglýsingastofa eða auglýsingadeild á ekki að taka við auglýsingum með augljósum málvillum.

 

LÖGREGLUFRÉTTIR

Það gengur misjafnlega að koma lögreglufréttum á framfæri á réttu máli, villulausu. Oft hefur verið bent á hér að rangt sé að segja að einhver hafi verið settur í varðhald eða vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. En þetta er ný útgáfa af mbl.is (02.03.2016): ,,Eft­ir það voru fimm­menn­ing­arn­ir vistaðir í fanga­geymslu lög­regl­unn­ar vegna rann­sókn máls­ins”. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/02/fimm_i_fangaklefa_eftir_slys/

 

UM GAGNRÝNI

Molaskrifari gerir fremur lítið af því að lesa gagnrýni um leiksýningar eða tónleika. Hann fór í óperuna sl. laugardagskvöld (27.02.2016), naut Don Giovanni Mozarts og skemmti sér konunglega. Frábær söngur sem og hljómsveit , sviðsetning eins góð og hægt er að vonast eftir á hinu grunna sviði Eldborgar,sem alls ekki er hugsað til óperuflutnings., – þótt listamenn láti sig hafa það. Eftir að hafa lesið gagnrýni (furðulega að honum finnst) um flutning óperunnar og frammistöðu listamannanna í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu á þriðjudegi (01.03.2016) hefur hann ákveðið að láta slík skrif ólesin í framtíðinni. Láta duga hvað honum sjálfum finnst. Enda það eina sem máli skiptir. Ekki hvað mismunandi geðstilltir gagnrýnendur setja á prent.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>