«

»

Molar um málfar og miðla 1902

AÐ MALDA Í MÓINN

Molavin skrifaði (04.03.2016):

„Hann (Ted Cruz) reyndi nokkrum sinnum að malda í móinn þegar hvað hæst lét á milli Rubio og Trump og bað Trump ítrekað um að anda rólega.“ Svo orðar fréttamaður Ríkisúrvarpsins á síðu RUV (4.3.2016) þegar hann greinir frá því að einn fjögurra frambjóðenda Repúblikana hafi í kappræðum í sjónvarpi reynt að róa aðra niður, sem rifust hástöfum. Enn notar fréttamaður hugtök ranglega. Sögnin að malda merkir að ‘mögla, andmæla, þrasa’. Auk þess sagði í fyrirsögn og texta að kappræðurnar hafi farið fram „í nótt.“ Svo var vitaskuld ekki þótt komin væri nótt á Íslandi.” Kærar þakkir Molavin. Orðtök,sem föst eru í málinu reynast mörgum erfið viðfangs nú um stundir.

 

ENGINN LES YFIR

Sigurður Sigurðarson skrifaði ( 04.03.21016): ,,Í Morgunblaðinu á blaðsíðu 12 birtist þann 4. mars grein sem er í sjálfu sér áhugaverð en frekar illa skrifuð, enginn les yfir, eins og þú segir stundum. Fyrirsögnin er góð: „Feta í fótspor feðra sinna á hálendinu“. Svo byrja leiðindin:

  • „Hópur fjallagarpa ætlar nú að endurtaka leiðangur sem fyrst var farinn árið 1976 …“ Fjallagarpar eða aðrir geta ekki endurtekið það sem þeir hafa aldrei gert áður.
  • „3. apríl 1976 …“ segir í upphafi fyrstu línu. Flestum er kennt að byrja ekki setningu með tölustaf, það er óskaplega mikið stílbrot að gera svo.
  • „… og er þetta fyrsta ferðin sem vitað er til að hafi verið farin þessa leið.“ Klúðurslegt; ferð farin þessa leið!. Betra hefði verið að segja að þessi leið hafi þarna líklega verið farin í fyrst sinn.
  • „Ef þeir gætu ekki bjargað sjálfum sér gætu þeir örugglega ekki bjargað öðrum líka.“ Leiðinleg nástaða; bjargað, bjargað. Betra hefði verið að umorða þetta jafnvel þó haft sé eftir viðmælanda.
  • „Tilgangur ferðarinnar nú er að heiðra minningu þess afreks …“. Það sem hér er átt við er að minnast afreksins og færi betur á því að segja það.
  • „… munu leiðangursmennirnir gista í tjöldum og skálum á víxl.“ Betur fer á því að segja að gist verði ýmist í tjöldum eða skálum.

Hægt er að gagnrýna ýmislegt annað í þessari stuttu grein. Vandinn er að ungir skrifendur frétta fá greinilega ekkert aðhald, bara klapp á bakið og halda því að þeir hafi gert vel. Hvernig eiga þeir að vita annað þegar enginn gagnrýnir?” Þakka bréfið, Sigurður. Yfirlestur heyrir sögunni til.

 

VIÐ HÖFN – VIÐ BRYGGJU

Alltaf öðru hverju heyrist sagt um skip í fréttum að þau séu við höfn.

Þetta orðalag var notað í miðnæturfréttum Ríkisútvarps í síðustu viku

(01.03.2016). Skip eru í höfn. Skip eru við bryggju, liggja við bryggju. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri að skip hefði lagt að höfn. Skipið kom í höfn. Hér er verkefni fyrir málfarsráðunaut.

 

BEINBROT

Í fréttayfirliti í Ríkissjónvarpi (03.03.2016) var sagt að tólf ferðamenn hefðu brotið bein. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að tólf ferðamenn hefðu beinbrotnað? Skrifari hallast að því.

 

DÁSEMD

Það var auðvitað hrein dásemd hjá Ríkissjónvarpinu á fimmtudagskvöldið ( 03.03.2016) þegar okkur var boðið upp á lögguþátt frá Brooklyn kl 21:35 og lögguþátt frá Chicago klukkan 22:20. Vantaði eiginlega bara þátt um bráðaliða í einhverri borg þarna mitt á milli. Það er eitthvað að, þegar kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins er svona saman sett. Kannski slys. Vonandi ekki ásetningur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>