HROGNAMÁL
Þetta skrifaði starfsmaður 365 miðla, sennilega íþróttafréttamaður, á fésbókina á föstudagskvöld (18.03.2016):,, Svona gerist stundum í beinni. Okkur var kippt úr sambandi eftir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í kvöld. Við misstum allt hljóð úr headsettunum og ljósin fóru út.
Við héldum að við hefðum dottið úr loftinu og þá braust fram gangsterinn í mér.” Þetta eru nú ekki beinlínis verðlaunaskrif! Og varla snilld.
Og þessi ummæli voru höfð eftir þjálfara á mbl.is sama dag: „Sóknarleikurinn var ekkert frábær í síðari hálfleik en hann var nóg. Varnarleikurinn var „outstanding.“ Þegar við spilum góða vörn þá sköpum við okkur svigrúm þó sóknin sé ekki hágæða.“ Það var og.
DROPINN OG MÆLIRINN
Og nú hefur dropinn fyllt mælinn, sagði bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.03.2016). Hann átti við, að nú hefði kornið fyllt mælinn. Nú væri fólki í Eyjum meira en nóg boðið, nú væri mælirinn fullur. Algengt nokkuð, að farið sé rangt með þetta. Mæliker, mál, voru áður fyrr notuð til mæla korn. Sjá Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 495. Oft verið nefnt í Molum.
Bæjarstjórinn sagði einnig, að meðan ekkert væri gert, gerðist ekki neitt. Það var auðvitað mjög spaklega mælt.
HÚSIÐ OPNAR
Húsið opnar klukkan nítján, sagði dagsrárkynningarrödd í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld (19.03.2016), þegar verið var að kynna opin fund um heilbrigðismál í Háskólabíó. Húsið opnar ekki. Húsið verður opnað klukkan nítján. Villan var endurtekin í tíu fréttum á mánudagskvöld (21.03.2016), en í Kastljósi sama kvöld var réttilega sagt, – húsið verður opnað. Prik fyrir það.
ENN EITT DÆMI …
Úr frétt af mbl.is (19.03.2016): ,,Frosti Sigurjónsson, þingmanni Framsóknarflokksins, var ekki skemmt yfir ummælum Vilhjálms um Framsóknarflokkinn en að sögn Vilhjálms nær óbeit hans á flokknum allt aftur til þess er hann var átta ára gamall og fór að kynna sér stjórnmál.” Þessi setning ætti auðvitað að hefjast svona: ,,Frosta Sigurjónssyni þingmanni Framsóknarflokksins var ekki skemmt …. “ Skortur á máltilfinningu. Vilhjálmur,sem nefndur er í setningunni, er Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks. Glöggur maður,sem segir skoðanir sínar umbúðalaust, skýr og skorinorður. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/19/med_obeit_a_framsokn/
DUNGAL
Það eru sjálfsagt ellimörk á Molaskrifara, að oft finnst honum endurtekið efni vera með því besta sem er á boðstólum á Rás eitt. Á laugardagsmorgni (19.03.2016) var endurfluttur einn þriggja þátta (2:3) sem Árni Gunnarsson fréttamaður, seinna þingmaður og framkvæmdastjóri gerði um prófessor Níels Dungal árið 2004. Fínn þáttur. Dungal var frumherji á mörgum sviðum, til dæmis í baráttunni gegn reykingum, en maður umdeildur. Molaskrifari man enn hvað hann las bók Dungals , Blekkingu og þekkingu af mikilli áfergju á gelgju- unglingsárunum, mótþróaárunum! Bókstaflega gleypti hana í mig. Trúði öllu sem þar stóð. Eins og nýju neti. Þetta var um svipað leyti og ég fyrst las Bréf til Láru og Alþýðubók HKL! Þá var ég sannfærður kommúnisti. Það rjátlaðist af mér fljótlega eftir fermingu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar