DAGSKRÁ ÚR SKORÐUM
Það var mjög eðlilegt að dagskrá Ríkissjónvarpsins færi nokkuð úr skorðum á miðvikudagskvöld (06.04.2016) og lítið við því að segja. En þetta virtist eiginlega vera stjórnlaust. Dagskrárbreytingar, sem aldrei urðu, voru kynntar á skjáborða: Kiljan hefst klukkan 21 20. Hvað varð annars um Kiljuna? Engar skýringar voru gefnar, – svo ég heyrði að minnsta kosti. Þarna átti auðvitað að vera þulur á vakt ,sem tilkynnti þessar breytingar. Enn og aftur kemur í ljós að áður uppteknar, gamlar, niðursoðnar, dagskrárkynningar eru ekki boðlegar, þegar eitthvað breytist óvænt. Þarna hefði verið auðvelt að bregðast við og bæta þannig þjónustu við okkur. Það var ekki gert. Það var eins og dagskráin væri á sjálfstýringu þar sem enginn var bær til að taka ákvarðanir. Hvar voru yfirmennirnir? Þorði enginn að taka ákvörðun?
ENN UM AÐ STÍGA TIL HLIÐAR – ALLT Í RUSLI
Á miðnætti í fréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (06.04.2016) talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra enn um að Sigmundur Davíð ætlaði ,,að stíga til hliðar”. Bjarni hefði átt að segja að forsætisráðherra ætlaði að biðjast lausnar, segja af sér.
,,Stjórnarandstaðan er í rusli líka”, sagði Bjarni í þessum sama fréttatíma . Það er sem sagt ,,allt í rusli hjá ríkisstjórninni”. Óheppilegt orðalag.
AÐFÖR
Fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, birti grein í Morgunblaðinu í gær (07.04.2016) undir fyrirsögninni Aðför, – stysta fyrirsögn á fimm dálka grein, sem Molaskrifari man eftir að hafa séð. Það gagnrýnir hann harkalega hlut fréttamanna í viðtalinu við SDG forsætisráðherra 11. mars síðastliðinn.
Það verklag sem þar var notað er alls ekki nýtt af nálinni og hefur áður verið notað til þess að fá sannleikann fram. Þetta getur auðvitað verið umdeilanlegt. En þarna var þetta réttlætanlegt. Forsætisráðherra var orðinn margsaga, margbúinn að segja okkur ósatt. Það þurfti að afhjúpa það.
Afar ólíklegt er að maður með hreina samvisku, hreint mjöl í pokanum hefði brugðist við eins og SDG gerði í þessu viðtali, sem nær öll heimsbyggðin hefur nú sjálfsagt séð. Það voru ekki vinnubrögð fréttamanna ,sem felldu hann. Það voru hans eigin orð og gjörðir. Fréttamennirnir drógu sannleikann fram, – með töngum -kannski. Orð og gjörðir ráðherrans sjálfs urðu honum að falli. Það er ekki hægt að kenna fréttamönnum um það. Í lok greinarinnar segir fv. hæstaréttardómarinn: ,, Og þeir sem þessa dagana tala um lágkúru í umræðum um þjóðfélagsmál , ósannindi og skotgrafahernað ættu kannski að hugleiða hvort svona framferði eins og þessir fréttamenn viðhöfðu er ekki kannski fremur en nokkuð annað til þess fallið að auka veg lágkúrunnar”.
Sannleikurinn eykur ekki veg lágkúrunnar.
Segir ekki í bók bókanna: ,, … og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa”. (Jóh. 8:32)
Og: ,,Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.”. (Orðskviðirnir12:19)
Það er mikill vísdómur í Orðskviðunum.
AÐ SIGRA KEPPNINA
Í þættinum Spretti í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöld (06.05.2016) sagði umsjónarmaður og kynnir: ,,Það mun ráðast hér í kvöld hver sigrar einstaklingskeppni deildarinnar”. Raun að þurfa að hlusta á þetta! Málfarsráðunautur leiðbeini þeim, sem þetta sagði. Það er hluti af starfinu.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar