«

»

Molar um málfar og miðla 1931

 

AÐ KOMA Í KOLL

Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló, benti Molaskrifara (18.04.2016) á eftirfarandi úr Kjarnanum:

,,Hótanir Sádi-Araba gætu komið í bakið á þeim sjálfum

Helgi segir:

,,Enn verra, ef það kæmi þeim sjálfum í koll!” Satt segirðu, Helgi. Þakka ábendinguna.

 

HEILU OG HÖLDNU

Molavin skrifaði (18.04.2016): “ Þeir hafi allir komist heilir á höldnu á land…“ segir í frétt á ruv.is í dag, 18.04.2016. Á þetta hefur áður verið bent í Molum en þeir læra seint, sem hvorki þiggja leiðbeiningar né nota orðabækur. Vonandi tekur málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins að sér að kenna fréttamönnum að nota uppsláttarrit þegar þeir fara með orðtæki sem þeir kunna ekki. Nóg var þar til af slíkum ritum síðast þegar ég gáði.”  Réttmæt ábending, Molavin. Þakka bréfið. Rétt er að þetta hefur áður verið nefnt. Verst er , þegar fólk telur sig vita allt best , kunna allt best og ekki þurfa á neinum leiðbeiningum eða handbókum að halda. Efast aldrei um eigið ágæti. Það er verst.

 

SITJANDI ….

JT skrifaði Molum (18.04.2016) ,,Sælir – og bestu þakkir fyrir sífellt áhugaverða og lifandi pistla um okkar ástkæra ylhýra….

Spurning hvort þú getur tekið eina rispu um ,,sitjandi….“ stjórn, ráðherra, forseta…. Í forsetaframboðsumræðu er í ljósi nýjustu atburða oft talað um að fara gegn sitjandi forseta, hvort þeir sem hafa tilkynnt framboð ætli að standa við að fara gegn sitjandi forseta. Mér finnst sitjandi óþarft hér (eins og reyndar yfirleitt), það er bara einn forseti og hann er það þar til hann eða annar hefur verið kjörinn. Ef menn vilja merkja hann sérstaklega mætti kannski segja fráfarandi. En að nota orðið sitjandi í þeirri merkingu þegar menn gegna embættum er yfirleitt óþarfi í íslensku máli. Menn gegna því, eru ráðherrar, þingmenn, forsetar eða ríkisstjórn þar til þeir fara frá.
Finnst þér þetta út í hött?
Og enn og aftur mætti minna á að ,,íslenska“ ekki alltaf tímann þegar sagt er frá atburðum erlendis. Í fréttum sjónvarps (ég segi ekki RUV við þig….) í gærkvöld var sagt frá jarðskjálftunum í Ekvador sem voru klukkan 12 á miðnætti að íslenskum tíma. Það segir ekkert um við hvernig aðstæður jarðskjálftarnir urðu; var nótt, dagur, kvöld, morgunn, sem sagt allir heima í rúmi, allir úti í vinnu eða hvað…? Þessi árátta í fréttum er hvimleið.” – Þakka JT hlý orð í garð Molanna. Mér finnst það sem JT skrifar um sitjandi alls ekki út í hött. Tek undir það sem hann segir. Sitjandi hefur svo aðra merkingu, en það er allt önnur Ella.

Sama máli gegnir um þann ósið að færa allt, sem gerist erlendis, yfir á íslenskan tíma. Það er ekki góð vinnuregla og hefur nokkrum sinnum verið vikið að því hér í Molum. Kærar þakkir JT.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>