«

»

Molar um málfar og miðla 1942

KJÁLKALÍNAN

Molavin skrifaði (04.05.2015): ,,Það er mikið lagt á unga blaðamenn Vísis, að þurfa að þýða slúðurfréttir úr ensku yfir á skiljanlegt íslenskt mannamál. Fyrirsögn í dag (4.5.2016) er svohljóðandi: „Rumer Willis brjáluð yfir því að kjálkalínu sinni var breytt með Photoshop: „Þetta er einelti og ég mun ekki líða það.“ Um er að ræða að hökusvip ungrar konu var breytt í myndvinnsluforriti. Það heitir á ensku „jawline“ en það hugtak þekkir blaðamaðurinn ekki og þýðir það orðrétt sem „kjálkalínu.“

Nógu slæmt er að móðurmálskennslu hefur hrakað í skólum; verra er að þeir sem kunna illa sitt móðurmál skrifa í fjölmiðla og hafa þannig með hroðvirkni enn verri áhrif á unglinga. Ábyrgðin liggur hjá þeim sem stýra fjölmiðlunum.” – Þetta er hverju orði sannara, – þakka bréfið, Molavin. Ábyrgð þeirra ,sem stýra fjölmiðlunum er mikil, en þeir koma sér hjá því að axla ábyrgð og virðist skorta metnað til að

gera vel.

 

MINNIST TÚ GILDIÐ?  MANSTU VEISLUNA?

Danska sjónvarpið sýndi í gærkvöldi (04.05.2015) fyrri hluta (01:25)  merkilegrar heimildamyndar um hrun Eik banka í Færeyjum. Minnist tú gildið? – Manstu veisluna? Uppskriftin var íslensk. Þetta bankahrun í Færeyjum snertir okkur meira en lítið. Íslendingar koma þar mjög við sögu. Færeyingar gerðu myndina. Ríkissjónvarpið hlýtur að sýna okkur þessa mynd. Fyrr en seinna.

 

UM ÆTTLEIÐINGAR

I. skrifaði Molum (02.05.2016) og segir: ,,Sæll enn.

Maður skyldi ætla að fólk setji hundana í erfðaskrána hjá sér !

Sjá þessa frétt á mbl.is (02.05.2016): ,, Leik­kon­an Oli­via Munn hef­ur stækkað fjöl­skyld­una, en á dög­un­um ætt­leiddi hún lít­inn hvolp. Hvolp­ur­inn, sem hlotið hef­ur nafnið Frank Rod­gers, er flæk­ings­hund­ur en Munn ætt­leiddi hann hjá dýra­at­hvarf­inu Love Leo Rescue.”

Molaskrifari þakkar bréfið. ,. en skrif mbl.is um fræga fólkið eru löngu hætt að koma á óvart.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/05/02/olivia_munn_aettleidir/

 

 

VEL Í LAGT

Molaskrifari er líklega ekki einn um að finnast nokkuð vel í lagt, þegar síblankt sjónvarp ríkisins sendir átján manna hóp til Stokkhólms átta dögum áður en evrópska söngvakeppnin hefst þar í borg.

Forgangsröðunin hjá þessari þjóðarstofnun er stundum dálítið bjöguð, þegar hugsað er til þess hvað hún hefur takmarkað dagskrárfé til umráða.

Ríkissjónvarpið ætti að huga að því að verja þeim miklu fjármunum sem í þetta fara til vandaðrar innlendrar dagskrárgerðar.

Hvað skyldi þessi þátttaka annars kosta okkur, þegar upp er staðið?

Ríkissjónvarpið svarar ekki þannig spurningum frá almenningi. Enda kemur okkur það víst ekkert við.

 

VOND ÞÁTTAHEITI

Stöð tvö hefur eiginlega sérhæft sig í að gefa sjónvarpsþáttum vond nöfn, oft hrærigraut úr ensku og íslensku. Nýjasta afrek stöðvarinnar er að bjóða viðskiptavinum sínum þætti sem heita Battlað í borginni. Óskiljanlegt eða illskiljanlegt. Snertir Molaskrifara svo sem ekki mikið. Hann hefur aldrei verið áskrifandi að Stöð tvö. Og hefur ekkert slíkt í hyggju. En þetta er ekki til fyrirmyndar.

 

ENN UM SLETTUR

Molaskrifari hlustar ekki á morgunútvarp á hverjum degi og er ekki fastur hlustandi neins morgunþáttar. Hlustar einna oftast á morgunþátt. Rásar tvö vegna þess að Sigmar Guðmundsson er góður spyrill. Skrifari hefur oft gagnrýnt tíðar og illþolandi enskuslettur eins umsjónarmanns í morgunþætti Rásar tvö.

Á þriðjudagsmorgni fékk umsjónarmaður á baukinn fyrir slettuhríðina hjá málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins í ágætu Málskoti. (03.05.2016).Umsjónarmaður lofaði bót og betrun.

En slettur heyrast víðar. Í fréttum Stöðvar 2 (03.05.2016) sagði fréttamaður:,, Segðu okkur nánar frá þessu konsepti”. Orðið konsept (e. concept) er enska ekki íslenska. Ekki til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>