«

»

Molar um málfar og miðla 1967

NÝJUM FORSETA FAGNAÐ

Þjóðin hefur kjörið sér nýjan forseta. Þann sjötta í sögu lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Molaskrifari fagnar kjöri hans og færir honum einlægar árnaðaróskir og veit að honum mun vel farnast í vandasömu starfi. Í kosningabaráttunni var stundum sótt að honum með undarlega ómaklegum hætti. Hann varðist vel og lét það ekki eftir andstæðingum að fara inn á þeirra brautir. Hélt sínu striki.

Það er trú þess sem þetta ritar að íslensk tunga hafi eignast öflugan baráttumann á Bessastöðum. Gott er til þess að hugsa.

 

GÓÐ KOSNINGAVAKA

Á heildina litið var kosningavaka Ríkissjónvarpsins vel og vandlega unnin. Þetta er ekki einfalt verk,- það þekkir Molaskrifari frá gamalli tíð, þótt allt sé nú flóknara og tæknin margfalt betra en þegar við vorum að fást við kosningasjónvarp hér á upphafsárum Sjónvarpsins.   Dagskrárfólk og tæknimenn eiga heiður skilinn fyrir að hafa leyst þetta flókna verkefni ákaflega vel.

 

AFKOMANDI OG BREXIT

Heldi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló benti á eftirfarandi úr Stundinni (24.06.2016):

,,Í viðtali við Spegilinn á Rás 1 í byrjun júní segist Halla (Tómasdóttir) ekki vera komna af efnafólki en að foreldrar hennar hafi hvatt hana til að ganga menntaveginn.” Þakka ábendinguna, Helgi. Sami frambjóðandi  sagðist líka brenna fyrir …. Hafa mikinn áhuga á …. og talaði um að taka samtal um ákveðið efni, – ræða ákveðið efni.

En Helgi lét tillögu fljóta með línunum, sem hann sendi Molum: ,,Kjörið hvatningarhróp í leiknum við England:

BREXIT! – Hver veit, – en þessari tillögu Helga er hér með komið á framfæri!

 

SLÆMT ORÐFÆRI

VH sendi eftirfarandi (25.06.2016): ,,Sæll Eiður. Nú eru börn og unglingar er geta lesið um sínar fótboltahetjur á EM. En það mál sem fréttamenn nota er ekki fólki bjóðandi.
Fréttamaður Ríkisútvarpsins segir eftirfarandi:
Hann hafi ekki einungis skorað jöfnunarmark Íslendinga gegn Portúgölum heldur hafi hann skapað sigurmarkið gegn Austurríki þegar hann hreinsaði boltann fram völlinn á 95. mínútu. Sem dæmi um óþreytandi baráttuvilja hafi hann ekki látið þar við sitja heldur þotið upp allan völlinn og tekið þátt í skyndisókninni sem varð naglinn í kistu Austurríkismanna. –
Er þetta ekki hernaður með viðbjóðslegum orðum ?” – Það er nú ef til vill full sterkt til orða tekið. En þetta er vissulega orðlag ,sem er gagnrýni vert. Slæmt orðalag.

 

ENN UM N

Úr frétt á mbl.is. (26.06.2016): ,, Sól­veig Theó­dórs­dótt­ir er einnig ánægð með nýja for­set­ann og ekki síst nýju for­setafrúnna og barna­hóp­inn”. Þarna ætti að sjálfsögðu að standa , nýju forsetafrúna, eitt n ekki tvö. Þessa villu , og skyldar, er því miður orðið býsna algengt hnjóta um í fréttum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/26/hann_er_miklu_betri_en_gamli_karlinn/

 

GÓÐ UMFJÖLLUN

Umfjöllun Óðins Jónssonar og þeirra sem hann ræddi við í Morgunþætti Rásar eitt á föstudagsmorgni um Brexit (24.06.2016) var vönduð og upplýsandi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>