UM FRÓÐÁRSEL
Molavin skrifaði ( 27.07.2016): ,,Gísli heitinn Jónsson menntaskólakennari skrifaði árum saman reglulega pistla um málfar í Morgunblaðið. Eftir þeim var tekið og blaðamenn fóru almennt að ráði Gísla þegar hann benti á það sem betur mætti fara. Eitt af því sem honum fannst til lýta í máli margra var það sem kann kallaði „Fróðársel“ eða staglkenndar endurtekningar í setningum. Þessi furðuselur hefur reyndar stungið upp höfðinu í ýmsum orðum og gert þau leiðgjörn. Tillögur til úrbóta hafa ekki fengið hljómgrunn. Eitt þessara orða er orðið bílaleigubíll. Fyrir allmörgum árum var reynt að taka upp orðið útleigubíll þess í stað og komast þannig hjá staglinu. Orðið leigubíll hefur fyrir löngu öðlast hefð sem þýðing á erlenda orðinu „taxi“.
Munum það að málvernd snýst ekki einvörðungu um eftirlit með því hvað er „rétt“ mál eða leyfilegt. Hún varðar ekki sízt viðleitni til þess að tala og skrifa gott mál og hljómfagurt. Losna við lýti. Staglið er eitt afbrigði þessara lýta.
Ég leyfi mér að vitna í 22ja ára gamla grein Gísla þar sem skýrir hugtakið „Fróðársel.“
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/157876/
Kærar þakkir fyrir bréfið, Molavin. Greinar Gísla eru eftirminnilegar – sem og greinar Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.
SKRIFIN UM FRÆGA FÓLKIÐ
Sveinn skrifaði (25.07.2016): Sæll Eiður,
á að gefa sérstakan afslátt þegar kemur að skrifum um fræga fólkið, kvikmyndir og tísku? Ótal sinnum hefur Smartlandið verið nefnt í þessu samhengi en ambögurnar leynast víðar.
Vísir birti nýverið frétt með fyrirsögninni Nýr trailer einblýnir á Jókerinn Texti fréttarinnar var ekki skárri en fyrirsögnin, því miður, en einblýnir var alla vega að lokum breytt í einblínir.
Ætli blaðamaðurinn hafi verið stoltur þegar hann lét þennan texta frá sér? En yfirmaðurinn þegar hann las textann yfir?
Framleiðendur myndarinnar Suicide Squad hafa birt nýjan trailer fyrir myndina, sem verður frumsýnd í næsta mánuði. Sá nýjasti einblínir á Jókerinn, erkifjanda Batman, sem Jared Leto leikur. Myndin verður frumsýnd í næsta mánuði, en hún fjallar um hóp „vondra karla og kvenna“ sem eru þvinguð til að mynda nokkurs konar sérsveit
http://www.visir.is/nyr-trailer-einblinir-a-jokerinn/article/20161607296
Að vanda með góðri kveðju, Sveinn
Kærar þakkir fyrir bréfið, Sveinn. Í ritmáli í blöðum eða tímaritum á aldrei að gefa afslátt, þegar málvöndum og vandvirkni eiga í hlut. Oft hefur hér berið minnst á ömurlegt málfar í svokölluðu Smartlandi Morgunblaðsins, – en þetta er greinilega víðar að finna. Efast um að nokkur yfirmaður hafi lesið þetta yfir.
TVEIR FYRIR EINN
Verslanir auglýsa stundum að viðskiptavinur fái (á sama verði) tvö stykki af einhverju, kaupi hann eitt. Þetta getur verið skemmtilega orðað, kannski óvart, eins og í útvarpsauglýsingu nýlega: Sokkar, – tveir fyrir einn. Ef þú kaupir einn sokk færðu tvo ! Ekki amalegt tilboð!
Góða skemmtun um helgina og akið varlega!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar