«

»

Molar um málfar og miðla 1997

HÖND – HENDI

Molavin skrifaði (04.08.2016) : „Þessi sáttahendi danskra stjórnvalda…“ segir í frétt Kjarnans (3.8.16) þar sem fjallað er um danska fánadaga. Nefnifall orðsins *hönd* þvælist ekki aðeins fyrir mönnum þegar rætt um knattspyrnuleiki. Oft er réttilega sagt að leikmaður hafi verið dæmdur fyrir „hendi“ þegar bolti fer af hendi hans. Maður lætur líka eitthvað af hendi þegar það er afhent. Þágufallið á svo sem oft við. Aðrir eru svo hræddir við að nota það að þeir beita nefnifalli ranglega – svona til öryggis. Forðum var kennd sú aðferð, væru menn í vafa, að hugsa setninguna upp á nýtt með því að setja orðið „hestur“ í staðinn. Það er ekki eins í tveimur föllum og þá skýrist vandinn. Hann fékk boltann á höndina (hestinn) en boltinn fór af hendi (hesti) hans í markið.” Þakka bréfið, Molavin. Ég vandi mig snemma á að nota svein eða jökul ef ég var í vafa. Sjá annars þessa umfjöllun á vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=H%C3%B6nd

 

EKKI KOSNINGABANDALAG

Meira frá Molavin (04.08.2016): ,,Svolítið skrýtið að heyra í morgunfréttum útvarps (4.8.16) ítekað talað um kosningabandalag Trumps þegar þýtt er enska hugtakið „campaign.“ Almennt þýðir það kosningabarátta, en í umræddu tilviki er fremur átt við starfsfólk og forystufólk kosningabaráttunnar. Bandalag merkir hins vegar jafnan samstarf (ólíkra) afla eða flokka. Nær hefði verið að tala um sundrungu innan hóps nánustu ráðgjafa Trumps frekar en „innan kosningabandalags hans.“ – Rétt athugað. Þakka bréfið, Molavin.

 

SEGIR EKKERT

Af fréttavef Ríkisútvarpsins á laugardag (06.08.2016): Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var fjöldi þeirra sem kom til að fylgjast með göngunni svipaður og í fyrra. Þetta segir okkur nákvæmlega ekkert um mannfjöldann.

http://www.ruv.is/frett/otrulegar-dronamyndir-af-gledigongunni

 

 

 

 

AÐ BÍÐA ÓSIGUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.08.2016) var sagt: Afríska þjóðarráðið, stjórnarflokkur Suður Afríku, laut í lægri hlut fyrir helsta stjórnarandstöðuflokknum ….  Rétt hefði verið að segja að flokkurinn hefði beðið lægri hlut, eða lotið í lægra haldi, beðið ósigur.

Enginn les yfir.

 

AÐ KJÓSA – AÐ GREIÐA ATKVÆÐI

Oft hefur það verið nefnt hér í Molum, að það hefur ekki sömu merkingu að kjósa og að greiða atkvæði. Mikið væri það þarft verk , ef málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins skýrði þann mun sem er á þessu tvennu fyrir fréttamönnum.

Þetta er af fréttavef Ríkisútvarpsins (04.08.2016) , – og var líka lesið fyrir okkur í hádegisfréttum sama dag.

,, Öldungadeildin kýs á þriðjudag um hvort Rousseff verði sótt til saka fyrir embættisglöp. “ Hér ætti að segja, að greidd verði atkvæði um það á þriðjudag ( í brasilíska þinginu) hvort … Það ætti ekki að vera erfitt að gera greindu fólki þetta skiljanlegt.

http://www.ruv.is/frett/thingnefnd-metur-mal-rousseff-i-dag

 

BROTTFARIR FLUGVALLAR

Í tíu fréttum Ríkisútvarps (08.08.2016) var sagt frá bilun í tölvukerfi Delta flugfélagsins. Í fréttinni var talað um brottfarir Keflavíkurflugvallar. Enginn les yfir. Enginn fullorðinn á vaktinni?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>