«

»

Molar um málfar og miðla 2023

ÓSKILJANLEG SKRIF

Valdimar Kristinsson skrifaði ( 24.09.2016):

Sæll Eiður.

Vil byrja á að þakka þér fyrir þína sjálfskipuðu varðstöðu um íslenskt mál sem þú hefur tekið þér. Ekki vanþörf á og mættu fleiri skipa sér í lið með þér.

En að efninu.

Var að lesa frétt um mann sem hafði falið gull í endaþarmi á mbl.is og hnaut þá um eftirfarandi í lok greinarinnar:

 

„Hann var sá starfsmaður sem setti málm­leit­ar­tæk­in á staðnum oft­ast af stað, fyr­ir utan þá starfs­menn með ígræðslur, en í hvert skipti komst að í gegn­um efti­r­á­leit.“

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/09/23/faldi_gullmolana_i_endatharminum/

 

 

Því fer nú fjarri að ég sé einhver málfræði og stafsetninga snillingur þótt ég hafi unnið á Morgunblaðinu 25 ár (hætti fyrir rúmum áratug). En þessa málsgrein skil ég ekki alveg. Finnst hún lykta mjög af „google translate“ þýðingu. Er þetta ekki bara mál- eða setningafræðilegt bull?

 

Tek undir með þér að um vinnubrögð Morgunblaðsins og mbl.is megi segja að nú sé hún Snorrabúð stekkur. Það er alveg með ólíkindum hvað þessir miðlar láta frá sér fara í dag sbr. það sem tíðkaðist hér áður. Í minni tíð voru alveg grjótharðir prófarkalesarar á Mogganum sem gáfu enga grið þegar maður gerðist frjálslyndur og ætlaði að leyfa sér einhvern töffaraskap í málfari sem þeir á íþróttadeildinni reyndar komust oft upp með.

 

Í dag eru oftsinnis brotnar allar helstu reglur fyrri tíðar og þar á meðal um fyrirsagnir þar sem höfuð áhersla var ma. lögð á að þær ættu að opinbera sem best efni greinarinnar. Í dag sér maður ítrekað fyrirsagnir sem gefa akkurat engar upplýsingar um efnið og svo ekki sé nú talað um allar aðrar ambögur sem þar getur að líta. Líklegt þykir mér að vinum mínum Magnúsi Finnssyni og Freysteini Jóhannssyni og sjálfsagt öðrum gömlum mbl mönnum svelgist nú oft á við lestur þessara miðla í dag.

 

Velti fyrir mér hvort þessi óheilla þróun sem virðist eiga sér stað í málfari á fjölmiðlum eigi rót sína að rekja til rekstrarerfiðleika fjölmiðlanna. Menn tími einfaldlega ekki að eyða tíma (peningum) í yfirlestur á efninu. Hitt er annað að ég tel að ungt fólk í dag hafi yfir höfuð mjög litla máltilfinningu og þegar kemur að mál- og orðatækjum séu þau gjörsamlega úti á túni eins og sagt er. “

 

Molaskrifari þakkar lofsamleg ummæli um þessi pistlaskrif. Tilvitnuð málsgrein er óskiljanlegt bull. Enginn prófarkalestur (gæðaeftirlit með framleiðslunni). Enginn les yfir eða leiðbeinir.  Slæmt málfar í fjölmiðlum á sér sjálfsagt margar orsakir. Þeirra á meðal erfiðan rekstur fjölmiðla , kröfur eigenda um hagnað, – þess vegna eru laun lág, – ekki síst hjá nýliðum. Minnkandi áhersla á móðurmálskennslu á öllum skólastigum og síðast en ekki síst minnkandi bóklestur barna, unglinga og ungs fólks almennt. Ítreka þakkir til Valdimars fyrir bréfið.

 

FÆREYJAR

Enn saknar Molaskrifari þess að sjá ekki Færeyjar á Evrópukortinu í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Hafði þó orð góðs veðurfræðings fyrir því fyrir nokkru, að búið  væri að leysa málið og Færeyjar væru komnar á kortið. En ekki bólar enn á eyjunum átján. Hvað veldur?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>