ERLENDIS
Mörgum útvarpsmönnum virðist algjörlega ofviða að nota atviksorðið erlendis rétt. Þetta orð er fyrst og fremst notað um dvöl erlendis. Hann var erlendis í tólf ár. Við erum ekki á leiðinni erlendis eins og útvarpsmaður talaði um í þáttarlok rétt fyrir hádegisfréttir á Bylgjunni (04.11.2016). Við förum til útlanda. Þegar við erum komin útlanda, erum við erlendis.
ALL I WANT …..
Auglýsingableðli frá versluninni Ilvu eða Ilva var vafið utan um Moggann, sem Molaskrifara barst á föstudag. Efst á þessum bleðli stóð: All I want for Christmas … en þetta er tilvitnun í þekkt ameriskt jólalag. Hversvegna hefur þessi verslun ekki meiri metnað en svo að nota ensku í fyrirsögn á auglýsingu í íslenskum fjölmiðli? Ekki tekur betra við á baksíðunni. Þar eru auglýstir Christmas- aðventuljósastjakar, Christmas- kertaglös og þetta er kórónað með auglýsingu um Christmas-jólatré. CHRISTMAS – JÓLATRÉ Hvílíkt endemis rugl!
Þessi verslun ber ekki mikla virðingu fyrir íslenskri tungu. Við ættum ekki að bera mikla virðingu fyrir þessari verslun. Svo má líka spyrja: Hvaða auglýsingastofa leggst svo lágt að hanna svona auglýsingar?
Molaskrifari hvetur fleiri til að taka upp hanskann fyrir móðurmálið og andmæla vaxandi notkun ensku í auglýsingum í íslenskum fjölmiðlum.
ÓBOÐLEGT
Það hefur stundum verið nefnt hér að það er gjörsamlega óboðlegt að allar dagsrárkynningar Ríkissjónvarpsins skuli teknar upp löngu áður en þær eru fluttar.
Tvö dæmi frá föstudeginum (04.11.2016). Sagt var í dagskrárkynningu að umsjónarmenn Útsvars væru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Það var rangt. Áreiðanlega var vitað með margra daga fyrirvara að þau yrðu ekki umsjónarmenn. Umsjón með Útsvari höfðu Einar Þorsteinsson og Þóra Arnórsdóttir.
Annað dæmi. Verra. Um miðbik vikunnar var skýrt frá því í fjölmiðlum að Gísli Marteinn mundi ekki stjórna föstudagsþætti sínum. Var ógangfær vegna hásinaraðgerðar. Samt var tönnlast á því í dagskrárkynningum að Gísli Marteinn væri með þáttinn. Rétt áður en þátturinn hófst var sagt við okkur: Nú fara Gísli Marteinn og gestir hans yfir helstu efni vikunnar í beinni útsendingu.
Bergsteinn Sigurðsson stjórnaði þættinum. Vitað var fyrir löngu að Gísli yrði ekki með þáttinn. Samt var haldið áfram að gefa okkur rangar upplýsingar, segja okkur ósatt.
Þetta er óboðlegt. Ókurteisi sem engin alvöru sjónvarpsstöð mundi leyfa sér að sýna áhorfendum. En Ríkissjónvarpið lætur sig hafa það. Til skammar.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar