Molaskrifari hefur að undanförnu jöfnum höndum lesið ýmislegt um kínverska sögu og menningu í aldanna rás og íslenskar æviminningar, einkum frá nítjándu og tuttugustu öld. Meðal annars bækur þar sem tveir gagnmerkir blaðamenn birtu viðtöl við samtímamenn.
Þessir blaðamenn voru Valtýr Stefánsson,ritstjóri og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, blaðamaður og rithöfundur sem mér auðnaðist að verða málkunnugur. Hann notaði lengi skammstöfunina VSV og skrifaði árum saman fasta dálka í Alþýðublaðið undir nafninu Hannes á horninu. Valtý kynntist ég hinsvegar ekki. Báðir þessir menn björguðu miklum fróðleik frá glatkistunni alræmdu og það er þeim og raunar mörgum öðrum að þakka að varðveittar eru merkilegar heimildir og minningar um mannlíf og menningasögu fyrri aldar.
Undanfarið hefur Molaskrifari verið að lesa bók Valtýs Stefánssonar , Menn og minningar, útgefandi var Bókfellsútgáfan og útgáfuárið 1959.Bókinni fylgir nafnaskrá,sem ekki var sjálfgefið á þeim tíma. Birgir Kjaran hefur vandað til útgáfunnar, Í bókinni eru viðtöl og greinar. Hún er afar vel rituð og skemmtileg aflestrar. Eitt viðtalanna í bók Valtýs er við Ragnar Jónsson, Ragnar í Smára , einn merkasta menningarfrömuð síðustu aldar á Íslandi. Ragnar var jarðýtan í menningarmálum tuttugustu aldar Íslandi hvort sem um var að ræða tónlist,myndlist eða bókaútgáfu. Hann lét sér ekkert fyrir brjósti brenna og ekkert verkefni óx honum í augum.
Af því að fjölmiðlar eru oft til umræðu í þessum Molum þá leyfi ég mér að tilfæra stuttan kafla úr viðtali Valtýs við Ragnar í Smára frá 7. febrúar 1954 þar sem fram koma skoðanir Ragnars á útvarpi. Viðtalið hefur væntanlega birst í Morgunblaðinu.
Ragnar segir: „Fólk ofmettast af útvarpi. Víða á alþýðuheimilum í kaupstöðum og sveitum er nú ekkert annað til skemmtunar en útvarpið. Þar,sem þannig er ástatt, hættir mönnum til að nota útvarpið í óhófi og láta það rymja yfir heimilisfólkinu liðlangan daginn.
Útvarpið á aðeins að opna, þegar eitthvað er flutt sem flestir eða allir vilja heyra og hafa gagn og gaman að. En að mínu viti getur það nálgast beina líkamsárás að neyða saklaust fólk til að hlusta á verzlunarskýrslur frá félagaverzlunum út um byggðir landsins , eða negramúsík á öllum tímum dagsins.
Það er nauðsynlegt að læra að nota sér af því að loka fyrir útvarpið. Sé útvarpið látið hvína allan daginn, er hætt við að eins fari fyrir heimilisfólkinu eins og krökkunum er venjast því að úða í sig sælgæti alla daga og fá af því ólæknandi ólyst á hverju sem er.
Að minni hyggju verðum við að leggja áherzlu á að rækta sjálfstætt menningarlíf heimilanna líkingu við fyrri tíma svo þar geti komið upp hljóðfærasláttur, söngur og lestur góðra rita þar sem heimilisfólkið sjálft leggur fram sinn skerf. Hljóðfæri þurfa að komast inn á sem flest heimili.”
Valtýr Stefánsson lýkur svo viðtalinu með þessum orðum: „ Á þessa leið komst Ragnar Jónsson að orði, er ég hitti hann glaðan og reifan að vanda, dreifandi um sig hugmyndum og hugdettum um eitt og annað er til umbóta horfir í þjóðlífi voru og kann að gera íslenskt þjóðlíf ríkara og ánægjulegra fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Vonandi er , jafnt fyrir þjóðina og hann sjálfan að hugsjónirnar hans beri ríkulega ávexti í bráð og lengd”
Ragnar lét ekki sitja við orðin tóm, um að koma hljóðfærum inn á heimilin.
Hann gaf Eygló Helgu, konunni minni, hennar fyrsta hljóðfæri , litla fiðlu,sem enn er til, þegar hún var sjö ára. En faðir Eyglóar, Haraldur Gíslason,framkvæmdastjóri, starfaði fyrir Ragnar nær alla sína starfsævi.
Ragnar hefur sennilega ekki grunað er hann gaf lítilli telpu þessa fiðlu fyrir næstum sextíu árum að tónlistin yrði hennar ævistarf, þótt hljóðfærið yrði annað.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Gunnar Jónsson skrifar:
16/11/2009 at 16:51 (UTC 0)
Takk fyrir góða pistla og síðbúnar afmæliskveðjur, en gaf hann Eygló Helgu ekki sitt fyrsta hljóðfæri?
Margrét Árnadóttir skrifar:
09/11/2009 at 12:01 (UTC 0)
Sæll Eiður
Sendi þér hugheilar afmæliskveðjur í tilefni dagsins. Hugsa oft til þeirra glöðu góðu daga sem við áttum á fréttastofunni og hvað það var gaman í þrítugsafmælinu þínu! Hafðu það ætíð sem best, bið að heilsa Eygló. Kær kveðja, Magga
Ello skrifar:
08/11/2009 at 23:13 (UTC 0)
Mér er í minni að Rudolf Serkin hélt tónleika í þjóðleikkhúsinu, til minningar um Ragnar, vin sinn, í smjörlíkisgerðinni.
Maður fór af þeim tónleikum með brauðlappir. Slíkur var flutningurinn.
Ello
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
07/11/2009 at 13:53 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrrir hlýjar kveðjur, góði vinur , Ómar. Vináttu þína met ég mikils.
Ómar Ragnarsson skrifar:
07/11/2009 at 12:57 (UTC 0)
Ég vil á tímamótum í lífi þínu, minn gamli félagi og vinur, nota athugasemdadálkinn þinn til að óska þér til hamingju með sjötugsafmælið og þakka þér og Eygló fyrir gömul og gróin kynni.
Fimmta valdið skrifar:
07/11/2009 at 11:05 (UTC 0)
Firn mikil gerðust á Suðurlandsvegi, eftir lýsingu mbl.is, því þar fór bíll eina og hálfa veltu. Mér finnst fréttamiðillinn ekki gera þessum undrum nægileg skil í heimasíðu sinni.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/11/07/bilvelta_i_logbergsbrekku/