«

»

Molar um málfar og miðla 195

 Vegagerðin varar við hálkumyndun norðanlands í kvöld, sagði Vefmoggi (05.11.2009) Var ekki bara verið að vara við hálku? 

Bjarni Sigtryggsson skrifar: Þegar Stöð 2 og visir.is sögðu skilanefnd hafa eignast meirihluta í skartgripakeðju, datt manni helzt í hug hálsmen. En í ljós kom í fréttum annarra miðla að um var að ræða skartgripaverzlanakeðju. – Molaskrifari hugsaði það sama. Ánaleg orðanotkun.

 

 Það var ánægjulegt að heyra rétt farið með orðtakið að fara ekki í grafgötur með í sjónvarpsfréttum RÚV (08.11.2009), – að velkjast ekki í vafa um, að efast ekki um. Það er  svo gaman að geta  glaðst yfir litlu.
 

Úr Vefdv (08.11.2009): Þegar maðurinn reyndi að komast úr lyftunni flækti maðurinn sig með þeim afleiðingum að hann féll í gegnum lyftuopið og hrapaði niður fimm hæðir. Flækti sig? Illskiljanleg klúðurskrif.

  Úr Vefvísi (08.11.2009):… og vinnuframlag við bústaðinn leggi hann fram sjálfur. Hinn nýi kansellístíll,sem sumir blaðamenn  hafa tamið sér. Það er verið að segja að maðurinn vinni sjálfur við að byggja bústaðinn. Það er svo lesenda að meta hvort það sé sennilegt.

 Æ algengara er að heyra íþróttafréttamenn kalla íþróttafélög klúbba. Þetta er algjörlega óþarft og andstætt íslenskri málvenju. 

 Stöðugt fer vaxandi að nöfn fyrirtækja séu ekki fallbeygð, – ekki látin lúta lögmálum tungunnar. Í Ríkissjónvarpinu  (09.11.2009) var auglýsing frá verslun, sem kölluð var Janusbúðin. Þetta er ónefni. Janus var guðinn í rómversku goðafræðinni, sem hafði tvö andlit, sá bæði framtíð og fortíð, guð  dyra og hliða, upphafs (janúar) og endaloka. Á íslensku er eignarfallið af Janus, Janusar og þess vegna  ætti þessi verslun að heita Janusarbúðin.

 Molaskrifari hefur oft lýst þeirri skoðun, að  dagskrárkynningar RÚV sjónvarps séu tímaskekkja í þeirri mynd sem þær birtast okkur. Í kvöld (09.11.2009) var dagskrárkynnir að lýsa efni myndar sem var á dagskrá kvöldsins. Þar væri fjallað um það þegar fólk dettur út í 2 mínútur og 17 sekúndur. Dettur út? Út um glugga?  Ef halda á núverandi  fyrirkomulagi, þarf allavega einhver með þokkalega máltilfinningu að lesa textana yfir áður en þeim er bunað yfir okkur.   

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Eðlilegast  þætti mér að  tala um að missa meðvitund. Aukaspurninguna skil ég ekki alveg.

  2. Eygló skrifar:

    (aukaspurning )

    Er möguleiki á að það flokkist undir tækisfall, – að loka (með) hurðinni? Búin að velta þessu oft og lengi fyrir mér. Skiptist alveg í tvo hópa hvað fólk kýs að nota.

  3. Eygló skrifar:

    „þegar fólk dettur út í 2 mínútur og 17 sekúndur“

    Hvernig vildir þú segja frá þessu? Missir meðvitund? Fellur í ómegin? Fellur í dá? Missir tímaskyn?  Missir af?

    Mér fannst þetta ekkert skrýtið fyrr en þú bendir á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>