Af hverju þurfa umsjónarmenn Kastljóss RÚV (10.11.2009) að misbjóða mörgum áhorfendum með því að tala um að bjóða fólki á fitness námskeið þar sem fólki er kennt að pósa rétt ? Molaskrifara fannst þetta efni lítið erindi eiga í Kastljós. Umfjöllunin var um það sem ég leyfi mér að kalla sjúklega afskræmingu mannslíkamans og notkun litarefna til að búa til gervibrúnku.
Úr Vefdv (09.11.2009): Foreldrar Helenar höfðu skilið fyrir nokkru en móðir hennar fékk loksins faðir hennar til að grafa hana. Enn er óskrifandi fólk að skrifa fréttir í Vefdv. Röng beyging , vond þýðing. Og hvað segja menn um eftirfarandi fyrirsögn úr sama miðli sama dag: Blint stefnumót,sem karlmenn myndu deyja fyrir. DV er að gera ýmislegt gott, en málfarið á vefnum þeirra er oftar en ekki fyrir neðan allar hellur eins og tilgreind dæmi sanna.
Í seinni fréttum RÚV sjónvarps (09.11.2009) var sagt frá bólusetningarhneyksli í Belgíu þar sem knattspyrnumenn höfðu verið flokkaðir sem forgangshópur. Svo sagði Ingólfur Bjarni: …. Þar sem knattspyrna telst ekki vera undirliggjandi sjúkdómur… Þetta fannst Molaskrifara gott. Setning kvöldsins. En þegar allt kemur til alls , þá er knattspyrna sennilega undirliggjandi sjúkdómur hjá allmörgum.
Molaskrifari viðurkennir fúslega að hann er íhaldsmaður þegar kemur að málfari. Hann kann ekki að meta þegar Morgunblaðið segir (10.11.2009) í fjögurra dálka forsíðufyrirsögn: Tugmilljarða hækkanir á sköttum eru í pípunum. Hvað pípum ? Nú er þetta ekki ný frétt, hefur verið til umræðu um skeið. Það sem Molaskrifari kann ekki að meta er að talað sé um að eitthvað sé í pípunum, eitthvað sé yfirvofandi, eitthvað sé væntanlegt. Ekki vandað mál.
Annar umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö (10.11.2009) talaði um að bjóða á jólaborð. Af hverju ekki bjóða að jólaborði eða til jólaborðs, samanber að setjast til borðs ? Hinsvegar var gott hjá Gísla Kristjánssyni að tala um að álverksmiðjur og vopnasmiðjur í Noregi ætluðu að skjóta saman.. í merkingunni að leggja sameiginlega fé til einhvers.
Ríkisútvarpið á annars að sjá sóma sinn í að breyta þessum morgunþætti Rásar tvö. Losa hlustendur við bullið og aulaflissið.
Líklega hefur mörgum þótt skrítið að lesa í fréttum að formaður svokallaðrar Hreyfingar sem á eina þrjá fulltrúa á þingi væri búinn að ráða sér aðstoðarmann á kostnað skattborgaranna. Hreyfingin er fylgislaust og áhrifalaust fyrirbæri og óskiljanlegt er við hvað aðstoðarmaðurinn á að aðstoða formann þessa fámenna hóps.
Fjölmiðlar túlka skoðanakönnun um stöðu forseta Íslands á ýmsan veg, hver eftir sínu höfði. Molaskrifari er hinsvegar þeirrar skoðunar að staða forsetans sé ótrúlega sterk miðað við:
a) Hann var aðalklappstýran í liði útrásarvíkinganna og notaði hvert tækifæri sem gafst til að mæra þá og vegsama.
b) Hann hefur klúðrar hverju viðtalinu á fætur öðru við erlenda fjölmiðla, sem flestir hafa misskilið það sem þjóðhöfðingi vor vildi sagt hafa. Fræg varð orðasenna hjónanna í viðurvist erlends blaðamanns.
c) Hann hefur farið mjög á svig við sannleikann í sjónvarpi án þess að depla auga.
Í ljósi alls þessa hlýtur staða hans að teljast sterk.
Hitt er svo annað mál að staða hans styrktist ekki við útgáfu lofrollunnar sem gömlu bankabandittarnir borguðu fúlgur fjár fyrir að skrifuð yrði um hann, – líklega í þakklætisskyni.Ritdómarar gáfu bókinni falleinkunn og þjóðin felldi sinn dóm með því að kaupa hana ekki.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Andrés Magnússon skrifar:
17/11/2009 at 01:24 (UTC 0)
Þakkaðu fyrir að ástandið hafi lagast svo mikið. Hér mátti um árabil ekki heyra sögnina bjóða í ljósvakamiðlum án þess að verið væri að bjóða upp á hitt og þessa.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
11/11/2009 at 09:53 (UTC 0)
Sæl Eygló. Þessi auglýsing er skelfileg, – að ekki sé meira sagt. -Mér finnst mikill munur á því að segja að DV sé að gera ýmislegt gott og að segja t.d. – ég er ekki að skilja það sem DV er að gera.
Eygló skrifar:
11/11/2009 at 03:56 (UTC 0)
Setti inn ranga færslu. ÞETTA ætlaði ég að senda þér sem þjáningabróður mínum í íslenskuíhaldinu
Eygló skrifar:
11/11/2009 at 03:54 (UTC 0)
„DV er að gera ýmislegt gott…“ Vil vera viss um að þú sért ekki dottinn „í'ða“ >>> að-vera-að.
Heyri varla nokkurn mann sagnbeygja nema „að vera“. Ég rembist við að halda mér frá þessu, þarf stundum að leiðrétta mig og skelfist við tilhugsunina að ég taki ekki lengur eftir þessu. Þetta er svo lúmskt og smitandi að svínaflensan verður hjóm eitt….. Við erum ekki að skilja þetta : )
Kannski hef ég misst kímnina þ.e. ef ÞETTA á að vera fyndið
Steini Briem skrifar:
11/11/2009 at 02:59 (UTC 0)
Kastljósstelpur kunna að pósa,
og kremið aldrei óverdósa,
málglöð Lára í morgunþætti,
missti sig og Eið hún grætti.