«

»

Molar um málfar og miða 2089

MEINLOKAN MARGTUGGNA

Sagt var í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (05.01.2017): Í seinni leik kvöldsins mættust gestgjafar Danmerkur …. Þarna var verið að tala um dönsku gestgjafana,  sem héldu mótið, – ekki  einhverja sem voru gestjafar Dana, buðu Dönum. Þetta er einkennileg meinloka og undarlegt, að íþróttafréttamenn skuli ekki  vita  hvernig á að nota  orðið gestgjafi.

Í sama fréttatíma var talað um að taka þátt á HM. Er ekki  eðlilegra  að tala um að taka þátt í einhverju fremur en að taka þátt á einhverju? Molaskrifari hefði haldið það og mun hafa nefnt þetta áður!

 

AULAVILLA

Víðir benti skrifara á frétt á  mbl.is (06.01.2017) Í fréttinni segir: segir: „Sam­tals fær 391 lista­menn lista­manna­laun árið 2017″
Samkvæmt minni málvitund fá listamenn listamannalaun eða þrjú hundruð níutíu og einn listamaður (391) fær listamannalaun.

Þakka Víði ábendinguna. Hrein aulavilla. Enginn les yfir.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/06/391_faer_listamannalaun/

 

FRÉTTABRANDARI FÖSTUDAGSINS

Það hlýtur að vera fréttabrandari  föstudagsins (06.01.2017) að maðurinn, sem olli spjöllum á fjórum  kirkjum á Akureyri hafi ferðast milli kirknanna á hjólabrettti. Þetta var margtuggið í okkur.  Hvaða máli skipti það? Undarleg áhersla í frétt af þessu  óþokkaverki.

Talað var um um klæðningu á  Akureyrarkirkju. Ég hef alltaf haldið að Akureyrarkirkja væri múrhúðuð og mulningur settur í múrinn.   Er múrhúðun klæðning?  Held  ekki.

 

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>