«

»

Molar um málfar og miðla 212

Eftirfarandi línur eru frá Bjarna Sigtryggssyni, fyrrum fréttamanni og áhugamanni um  fjölmiðlun og íslenska tungu : Þar sem margt fjölmiðlafólk fylgist vonandi með pistlum þínum langar mig að biðja þig að vekja athygli á því að framundan er í Kaupmannahöfn Aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, en ekki loftslagsráðstefna, eins og nær allir fjölmiðlar hafa haldið fram að undanförnu. Munurinn er augljós; á aðildarríkjaþingi eru gerðir bindandi alþjóðasamningar eða breytingar á þeim. Ráðstefnur eru málþing þar sem sjónarmið eru kynnt og rædd. Jafnhliða aðildarríkjaþinginu eru haldnar margar samkomur, svo sem leiðtogafundur undir lokin.

Mig grunar reyndar að þú þekkir þetta mál flestum öðrum betur.“

Allt er þetta rétt sem Bjarni segir. Molaskrifari er þessum fundum, (sem á  ensku eru kallaðir Conference of the Parties, COP) ekki alveg ókunnugur Sat a.m.k. tvo slíka ásamt fleirum fyrir hönd Íslands í Buenos Aires og í Bonn. Kaupmannahafnarfundurinn er líklega sá  fimmtándi í röðinni.

Forseti Íslands ,sem staddur er á landinu um þessar mundir, kallaði Kaupmannahafnarfundinn líka Loftslagsráðstefnu er rætt var við hann á fullveldisdaginn á Rás 2 í RÚV. Það er sem sé röng nafngift.

Einkennilegt var að heyra umsjónarmann Morgunvaktar  spyrja forsetann efnislega á þessa leið: Ef við sækjum um aðild að ESB glötum við þá ekki fullveldinu? Það hefur farið framhjá umsjónarmanni, að við erum búin að sækja um aðild, en aðildarumsóknin hefur ekki verið afgreidd.


Svohljóðandi fyrirsögn er á vefmiðlinum visir.is (29.11.2009): Fjórir lögreglumenn myrtir í launsátri. Launsátur er fyrirsát (gerð með leynd) eins og orðabókin segir. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að standa: .. myrtir úr launsátri. Hinsvegar er ekkert í fréttinni sem bendir til að um launsátur hafi verið að ræða. Heldur hafi morðinginn komið inn á kaffihús og skotið lögreglumennina. Seinna í fréttinni stendur: Í fyrstu var talið að tveir byssumenn hefðu verið að verki en Ed Troyer, talsmaður lögreglu á svæðinu, segir að einn maður hafi verið að ræða. Maðurinn rændi ekki kaffihúsið og fullyrðir Troyer að um launsátur hafi verið að ræða. Byssumaðurinn hafi greinlega komið á kaffihúsið í þeim erindagjörðum til að myrða lögreglumennina. Þarna hefði átt að segja: Að um einn mann hafi verið að ræða. Fréttin er annars hálfgert rugl eins og þetta ber með sér.

Stundum hefur verið vikið að því hér að blaðamenn taki leikskólamálið með sér í vinnuna, samanber þegar talað er um að klessa á , þegar bílum er ekið á eitthvað, t.d. vegg eða staur. Ný útgáfa af barnamáli er í Fréttablaðinu í dag (01.12.2009) en þar segir í fyrirsögn: Stímdi á slökkvistöð og lögreglu. Það er auðvitað hægt að keyra á slökkvistöð, en að keyra á lögreglu???

Molaskrifara brá svolítið í morgunsárið  er hann heyrði skólastjóra,sem var tala um fjölda umferðarslysa á tilteknu tímabili segja: Það var  tuttugu og  fjórir of mikið. Molaskrifari sér að athugasemdir um málfar eins og hér eru birtar fara í taugarnar á Bergsteini Sigurðssyni blaðamanni á Fréttablaðinu,sem helgar slíkum skrifum Bakþankadálkinn  í blaði sínu fyrir nokkrum dögum. Honum verður ekki að ósk sinni að þessu verði hætt. Öll þau jákvæðu viðbrögð sem Molaskrifari hefur fengið eru hvatning til þess að halda þessum skrifum áfram.

Það verður líklega bið á því að Fréttablaðið birti  greinarstúf  um allt annað efni, sem Molaskrifari sendi á ritstjórnina fyrir viku eða tíu dögum. Það verður þá bara að hafa það.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Ágæti  Svanni.

    Alltaf er nú skemmtilegra  að eiga orðastað við þá sem  skrifa undir nafni, en hina  sem  fela sig  bak við dulnefni. Það má  auðvitað  kalla það orðhengilshátt að nefna  hlutina  réttum nöfnum. Ég er líklega  sekur um það. Á heimasíðu lofstlagsbreytingasamingins er  Kaupmannahafnarfundurinn kallaður : United Nations  Climate Change Conference in Copenhagen  – COP  15. COP er skammstöfun fyrir  Conference of the Parties.  Í  wikipediu á netinu er einnig þennan fróðleik að finna:

    The parties to the convention have met annually from 1995 in Conferences of the Parties (COP) to assess progress in dealing with climate change. In 1997, the Kyoto Protocol was concluded and established legally binding obligations for developed countries to reduce their greenhouse gas emissions.

    Það er einmitt   fimmtándi  fundur aðildarríkja samningsins  sem verður haldinn í Kaupmanna og hefst innan fárra daga. Orðið aðili er vissulega  ofnotað, en þegar það er rétt notað er ekkert að því. Við erum aðilar að þessum samningi . Við þurfum ekki að segja að  við séum  aðilar að NATÓ. Við erum í Nató. Við getum ekki sagt að  við séum í samningi.  Svo hef ég nú eiginlega ekki nennu til að segja mikið meira um þetta. En auðvitað er loftslagsráðstefna þjálla orð, þótt það sé  ekki faglega nákvæmt.

    Bergsteini þakka ég  prýðilegt bréf. Þú hefur margt til þíns máls. Það er hárrétt að ég er of  spar á að hrósa því þegar vel er gert,  vel að orði komist. Mun reyna að bæta úr því.

    Mér finnst að  fjölmiðlar  geri ekki nægilega miklar kröfur til  þeirra sem  ráðnir eru  til að skrifa og flytja fréttir.  Öllum verður okkur á í notkun málsins , enda margt  flókið , og stundum ræður smekkur , en um hann tjáir ekki að deila.

    Líka finnst mér að ekki eigi að  birta eða  flytja  texta, nema  búið sé að lesa hann vandlega yfir. Það á helst einhver annar að gera  en sá sem  skrifaði.

      Þegar ég skrifaði fréttir fyrir  Sjónvarið   las fréttastjórinn , séra Emil  Björnsson hverja einustu frétt yfir áður en hún var flutt. Um helgar gerði þetta sá sem  var  vaktstjóri.

    Mér finnst skorta aðhald í þessum efnum, en frumorsökina tel ég þó vera minnkandi áherslu á móðurmálsnám  á öllum skólastigum, minnkandi  bóklestur og  færri samverustundir með öldruðu  fólki.

    Góð bók er góður íslenskukennari og  mikið er líka hægt að læra á  spjalli við sér eldra fólk.

     Auðvitað eru alltaf að bætast orð í málið. Fyrir mitt  leyti sé  ég ekkert athugavert  við að  nota  sögnina  að  gúggla, gúgglaði, gúgglað. Allir tölvulæsir  vita við hvað er átt, rithátturinn egftir  framburði. Annar  þyrfti að nota heila setningu: Ég   fletti  þessu upp á  Google  leitarvefnum.

    Þakka þér  góða bgrein.

  2. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Kæri Eiður

    Mér þykir leitt að þú túlkir grein mína sem kröfu um að þú og aðrir sem blogga um íslenskt mál hættið því; það vil ég alls ekki, fyrir utan þá augljósu staðreynd að ég hef engan rétt til að fara fram á slíkt. Grein mín var hugsuð sem brýning til þeirra sem unna tungunni og skrifa um hana á opinberum vettvangi, að einblína ekki eingöngu á ambögur í dægurumræðunni, heldur reyna líka að taka eftir því sem vel er gert –  og það er býsna margt að mínu mati. 

     Ein hættan sem steðjar að íslenskri tungu er, að mínu mati, fólgin í ofuráherslu á ambögunum. Auðvitað á að halda villum til haga og benda á þær; mín vegna má gera það með stríðnislegum tón, jafnvel ströngum, en mér finnst því miður oft og tíðum stutt í hrokann hjá mörgum sem blogga um íslenskt mál (ég á ekki endilega við þig), sem er til þess fallið að fæla marga frá umræðunni.

    Fyrirekki svo löngu skrifaði Guðmundur Andri Thorsson góða grein um ungling sem hafði sent Vísindavefnum línu og spurt hvort réttara væri að „gúggla eitthvað“ eða „gúggla einhverju“. Svarið sem hann fékk var á þá leið að sögnin að gúggla væri ekki til í íslensku máli og því hvort tveggja rangt; rétt væri að segja: „Ég sló því upp á Google.“ Guðmundur Andri benti á að þarna hafði sá sem svaraði haft kjörið tækifæri til að rækta áhuga ungmennis á tungumálinu. Í staðinn gaf hann það svar að íslenska væri lokuð kví og tæki ekki við nýyrðum og tökuorðum. Ég er hræddur um að áhugi spyrjandans á falllbeygingu hafi gufað upp við þetta svar. 

    Njörður P. Njarðvík kallar tungumálið hljóðfæri hugans. Ímyndum okkur tónlistarkennara sem ætlar að kenna nemendum sínum að leika á hljóðfæri. Aðferð hans byggist fyrst og fremst á því að leika falskar nótur og benda nemendunum á að svona eigi ekki að spila. Þegar einhverjum verður á í messunnni gerir hann gys að þeim. Hvaða árangur heldurðu að það myndi bera? Hversu líkleg væri þessi aðferð til að rækta áhugann hjá nemendunum? Mín skoðun er sú að þeir myndu flosna úr námi hver af öðrum og missa allan áhuga á tónlist.

    Betur færi á að sýna nemendunum fram á hvernig tónlist getur verið stórkostlegt tjáningartæki, ef rétt er að staðið, og kenna þeim að miðla henni eins og þeir best geta. 

    Það sama á við um íslenskuna. Góður kennari innrætir nemendum sínum ekkki vanmetakennd, heldur trú á sjálfum sér og möguleika viðfangsins, í þessu tilfelli tungumálið. Þetta finnst mér að fleiri mættu hafa í huga þegar þeir drepa niður penna til að vanda um fyrir öðrum.

    Þakka annars fyrir naskar ábendingar, sem stundum má finna hér. 

    Með kveðju 

    Bergsteinn 

  3. Svanni skrifar:

    Orðið loftslagsráðstefna er ágætt í þessu samhengi. Það er eðlilegt að blaðamenn vilji ekki eyða dýrmætu plássi í fréttum, sem margar hverjar eru stuttar, í að tala um Aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

    ,,Ráðstefnur eru málþing þar sem sjónarmið eru kynnt og rædd,“ segið þið Bjarni. Tölvuorðabókin segir að ráðstefna sé ,,samkoma manna til að ræða um tiltekið verkefni (á nokkrum fundum).“ Hvor skilgreiningin er rétt?

    Í Kaupmannahöfn verður haldin samkoma manna til að ræða um tiltekið verkefni (takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda) á nokkrum fundum. Er það þá ekki ráðstefna? Hver segir að ekki sé hægt að taka ákvarðanir á ráðstefnum? Munum að dagblöð eru skrifuð fyrir hinn almenna lesanda og eiga að vera á mannamáli, en ekki samansafn stjórnsýslu- og fræðiorða sem mynda óþarflega flókin orðasambönd, sem sumir kalla langhunda! Dagblöð eru hvorki Stjórnartíðindi né Læknablaðið.

    Í erlendum fjölmiðlum er ýmist rætt um climate summit eða climate conference í þessu samhengi. Þess má geta að loftslagsráðstefnan (já, ég sagði það) heitir á ensku United Nations Climate Change Conference. Bein þýðing á því væri loftslagsbreytingaráðstefna Sameinuðu þjóðanna.

    Aðildarríkjaþing er enn eitt orðskrípið sem inniheldur ,,aðild“ eða ,,aðila“ sem nú þegar ríða húsum í fjölmiðlum svo ekki er á bætandi. Það liggur stundum við að skólabörn séu orðin ,,aðilar að skólastarfi“.

    Þú getur betur, Eiður Svanberg orðhengill!

  4. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Enn og aftur  gerir  tölvan mér  þann grikk að má út greinaskil. Næst síðasta málsgreinin átti að  vera þrjár málsgreinar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>