«

»

Molar um málfar og miðla 217

Sumum finnst líklega smásmugulegt að finna að því að áttafréttir RÚV (08.12.2009) hófust á orðunum: Stjórn og stjórnarandstaða kom sér saman um… Þarna komu tveir aðilar sér saman, gerðu samkomulag. Því átti að segja : Stjórn og stjórnarandstaða komu sér saman.

Mogginn í morgun ( 08.12.2009) minnti mig á bernsku mína. Hann var svo þunnur. Þegar ég og fleiri úr fjölskyldunni fyrir sextíu árum bárum út Moggann á Skeggjagötu og Flókagötu austan Rauðarárstígs á enda alla leið þangað sem nú heitir Stakkahlíð ,beið maður í ofvæni eldsnemma eftir því hvort blaðið yrði tólf , sextán eða jafnvel 24 síður. Það munaði miklu á burðinum. Verstur var desember. Þá voru stundum aukablöð og þá þurfti að rogast með tvo segldúkspoka sinn á hvorri öxl. Þetta voru líklega um það bil hundrað blöð. Yfirleitt voru nokkur blöð afgangs sem maður reyndi svo að selja í fyrirtækjunum við Rauðárstíginn. Ísaga , Pípuverksmiðjunni, verkstæðum Egils Vilhjálmssonar og Garnastöðinni. Verst var að rukka. Það var alltaf sama fólkið,sem sagði manni að koma seinna.

Það er mikill misskilningur hjá fréttastofu RÚV (08.12.2009) að Alþingiskosningar muni senn fara fram í Írak eins og sagt var í fyrri fréttum sjónvarps. Alþingiskosningar fara aðeins fram á Íslandi, því Ísland er eini staðurinn þar sem þjóðþingið heitir Alþingi. Þingkosningar verða hinsvegar senn í Írak. Undarlegt hvernig svona villa kemst alla leið inn í stofu hjá manni. Fréttaþulur talaði réttilega um þingkosningar í inngangi, en fréttamaður, sem flutti meginefni fréttarinnar talaði um Alþingiskosningar í Írak.

Söngur Karlakórs Reykjavíkur í Kastljósi RÚV (08.12.2009) var fínn og fágaður, eins og þeirra var von og vísa. Skörp andstæða við söng annars karlakórs fyrr í vikunni. Viðtalið í Kastljósi um uppboðið á hafmeyjarstyttu Nínu Sæmundsson var sígilt dæmi um það er spyrill hlustar ekki á viðmælanda sinn og spyr um það sem þegar er búið að koma fram og hlustendur hafa allir heyrt.

Á Morgunvakt Rásar tvö (09.12.2009) þegar umsjónarmenn , aldrei þessu vant, voru að ræða við starfsfélaga sinn, var tvívegis talað um Oddverja.Molaskrifari er vanur því að þessi volduga höfðingjaætt tólftu og þrettándu aldar sé kölluð Oddaverjar. Ættin var kennd við Odda á Rangárvöllum. Svo væri alveg prýðilegt ef umsjónarmenn þessa þáttar vendu sig af því að tala báðir í einu. Þeim er kannski ekki alveg ljóst að þá skilst ekki eitt einasta orð af því sem þeir segja. , en það er kannski allt í lagi.

Það er annars að verða fastur liður í þessum þætti að starfsmenn RÚV spjalli saman. Það getur svo sem verið gott og gilt og Bogi Ágústsson (10.12.2009) stendur alltaf fyrir sínu. Þetta sparar vonandi einhverja fjármuni. Ekki veitir af samkvæmt rekstrartölum RÚV.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>