«

»

Molar um málfar og miðla 218

Málglöggur vinur benti Molaskrifara á orðalag, sem stundum heyrist í útvarpi, en þá er sagt að klukkan sé tíu mínútur eða fjórðung gengin í miðnætti. Molaskrifari er vini sínum sammála um að svona eigi ekki að taka til orða. Hvað er að því að segja að klukkan sé tíu mínútur eða  fimmtán mínútur gengin í tólf ?

 

 

  Og er skemmst frá því að minnast, sagði fréttamaður RÚV (10.12.2009) í kvöldfréttum. Hér er blandað  saman tveimur orðtökum: Þess er  skemmst að minnast og skemmst er frá því að segja, það er skemmst af að segja, — í stuttu máli.  Nýr réttur var á boðstólum í matreiðsluþætti  (10.12.2009) RÚV sjónvarps  röregg. Á íslensku er talað um  eggjahræru. Röræg er danska. Það gerði sjónvarpskokkur  reyndar seinna í þættinum , svo sanngirni sé gætt. Svo Molaskrifari  haldi nöldrinu áfram þá  finnst honum  ætti sjónvarpskokkur að fá sér  betri hníf  en þann sem notaður var á hveitibrauðið. Það er ekki ómerkilegur hluti eldamennsku að eiga góða hnífa og kunna að beita þeim. Það vita allir kokkar.  Ömurlegasta „ekki frétt”, sem lengi hefur  sést í sjónvarpi RÚV (10.12.2009) var af ungum karlmönnum vestur á fjörðum  að troða í sig kjöti. Markmiðið var að hesthúsa  eitt kíló á einum og hálfum klukkutíma. Það vantaði bara að sýndar væru á undan og eftir myndir af sveltandi börnum í Afríku. Að sýna þetta í fréttatíma ber vott um alvarlegan  dómgreindarbrest hjá fréttastofu ríkisins.Þetta var heldur ógeðfellt. Fréttastofan ætti að biðjast afsökunar á þessum mistökum. 

 

 

 


 Beygingarfælninnar sér allt of víða stað. Í auglýsingu frá Ormsson segir:Við erum á ellefu stöðum á landinu: Akranes ….. Þarna hefði átt að vera þágufall. Við erum á Akranesi. 

 

   Svo er hér að lokum sönn saga úr stórmarkaði í Reykjavík.  Kona kom að afgreiðslukassa , þar sem táningur var að starfi. Konan spurði um verð á tveimur hlutum sem hún hélt á. Þegar stúlkan hafði  sagt henni verðið sagði konan: Ég ætla að fá hvorttveggja. Þá kallaði unga kassastúlkan á yfirmann eða samverkamann: Gunni, eigum við til hvorttveggja? Konunni varð eiginlega orðfall, svo sagði hún: Ég ætla að fá bæði. Ætlarðu að fá bæði og hvorttveggja , spurði stúlkan þá. Þannig var nú það.  

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>